07.06.1941
Neðri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3586)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Það er nú orðið alllangt síðan þessi þáltill. á þskj. 230 frá hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Barð. kom til landbn.

N. hefur nú afgr. þessa þáltill. á þann hátt, sem nál. á þskj. 686 greinir. Hún vill, að þáltill.samþ. á þennan hátt, en hefur gert á henni nokkra breyt., sem að nokkru leyti stafar af breyttu viðhorfi frá því, sem var, þegar till. var borin fram.

Það mun aðallega hafa vakað fyrir flm. þáltill., að síldarmjöl það, sem þá var til á Raufarhöfn, yrði ekki flutt úr landi, ef hætta væri á því, að ekki yrði um síldarútgerð að ræða í sumar og því ekki nein síldarmjölsframleiðsla. Nú var þetta síldarmjölspartí, sem var á Raufarhöfn, allt selt, þó að ekki væri búið að flytja það, burt. Hæstv. ríkisstj. mun ekki hafa þótt tiltækilegt að rifta þeim kaupsamningum, sem þar var um að ræða. Mér er ekki kunnugt um, hvort nokkuð er óflutt út úr landinu af þessu mjöli.

En það, sem fyrir okkur nm. vakir, er miklu fremur framleiðsla þessa árs heldur en þetta mjöl á Raufarhöfn, sem kann að vera eitthvað óflutt út úr landinu af, en búið er að selja. Og er hér verið að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að nægilegar síldarmjölsbirgðir verði til í haust til þess að nota næsta vetur hér á landi. Síldarmjölið er orðinn svo stór liður í búskap bænda og verður sjálfsagt nú meira en nokkru sinni fyrr vegna erfiðleika á að fá nægilegan vinnukraft í sveitirnar, og er því ekki minnsti vafi, að bændur verða meira en verið hefur að nota síldarmjöl til fóðurs á næsta vetri. Það liggur því í hlutarins eðli, að mesta nauðsyn er, að þess verði gætt, að þar verði ekki um skort að ræða, svo framarlega sem nægileg framleiðsla verður á síldarmjöli, sem við vonum, að geti orðið.

Það er tekið fram í þáltill., sem er viðbót við það, sem hún var í fyrstu, að ætlazt sé til, að síldarmjölið sé selt með hóflegu verði. Bændur fengu það með sæmilegu verði síðastliðið ár. Og það, sem landbn. meinar með þessu, er ekki, að sama verð verði á því og síðastliðið ár, heldur að verðinu verði stillt í hóf eins og unnt er.

Loks bendum við á það, að ákvæðum 1. nr. 41 12. júní 1939 verði framfylgt, að því er snertir eftirlit með efnisinnihaldi og gæðum síldarmjöls. Það berast alltaf meiri og minni kvartanir um það, að síldarmjöl, sem talið er 1. fl. vara, sé oft stórskemmt. Það mun oft koma fyrir, að í mörgum, ef ekki öllum síldarmjölspartíum eru margir pokar, sem eru stórgallaðir. Þetta vekur eðlilega mjög mikla óánægju hjá þeim bændum, sem fyrir þessu verða, og því er ekki nema eðlilegt, að þess sé óskað, að litið sé eftir þessu eins og unnt er.

Það má kannske segja, að það sé ekki brýn nauðsyn á að brýna þetta fyrir hæstv. ríkisstj., því að hún hafi verið vakandi fyrir þessu að undanförnu. En nú er svo mikið í húfi, hvað þetta snertir, og óvíst, hve mikið verður hægt að afla af fóðri á þessu sumri, — en það er víst, að það verður minna nú en að undanförnu vegna fólkseklu og þess vegna mikil þörf, að nægilega mikið sé til af því fóðri, sem hægt er að nota í stað heys. Og þess vegna telur landbn. rétt, að þáltill.samþ. í því formi, sem hún er hér.