07.06.1941
Neðri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (3590)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

*Finnur Jónsson:

Mér datt satt að segja ekki í hug, að mínar góðu undirtektir undir þessa þáltill. yrðu þess valdandi, að hv. 1. þm. Rang. ryki hér upp með umvöndunarræðu. En það hefur orðið önnur raun á. Ég mótmælti því alls ekki, heldur tók vel í það sem sanngirnismál, að bændur fengju síldarmjöl við hóflegu verði. Aftur á móti benti ég á það, að orðið gæti það ástand, að ekki fengist nóg síldarmjöl handa bændum, vegna þess að framleiðslan yrði ekki með eðlilegum hætti í sumar, nema gerðar yrðu sérstakar ráðstafanir til þess. Það kann nú að vera, að þetta þyki nokkuð mikil svartsýni. En enn þá vitum við ekkert um, hvernig verður um síldarútveginn í sumar. Það getur vel verið, að menn telji sér hagkvæmara að stunda aðrar veiðar í sumar heldur en síldveiðar. Og ef svo verður, teldi ég, að gera þyrfti ráðstafanir til þess að útvega bændum fóðurbæti. Þetta er nú allur sá fjandskapur, sem ég hef sýnt bændastéttinni við þessar umr. að ég vil heimila ríkisstj. að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja bændum fóðurbæti. Það lítur út fyrir, að þessi hv. þm. vilji heldur láta bændur setja féð á guð og gaddinn heldur en að leyfa ríkisstj. að gera þær ráðstafanir, sem ég vildi láta gera, ef á þyrfti að halda, og fer þá að verða vafasamur velvilji hans í garð bændastéttarinnar.

Ég benti á í þessu sambandi, að á s. l. ári hefðu síldarverksmiðjur ríkisins verið látnar selja síldarmjöl fyrir verð, sem svaraði hátt á annað hundrað þús. kr. undir lægsta markaðsverði á erlendum markaði. Og þar sem menn leggja síld sína til vinnslu með samvinnusniði, sem kallað er, upp í síldarverksmiðjur ríkisins og eiga vitanlega heimtingu á því að fá það, sem inn kemur fyrir vöruna, þá verður að gera kröfu um það, að ríkisstj. sjái ríkisverksmiðjunum fyrir greiðslu á þessum nærri 200 þús. kr. Ef skilja á þessa þáltill., sem hér liggur fyrir, þannig, að verið geti, að greiða þurfi úr ríkissjóði eitthvert fé, til þess að verðið á síldarmjölinu geti verið hóflegt, þá tel ég fyrir mitt leyti, að fyrir liggi vilji Alþ. og heimild til þess að gera slíkt. Og ég fæ ekki skilið það, hvernig hv. 1. þm. Rang. fer að kalla það fjandskap í garð bænda. Það er eins og þessi hv. þm. hafi þurft að hella hér einhverju úr skálum reiði sinnar. Og ég fyrir mitt leyti öfunda ekki sóknarbörn hans, ef hans reiðiskálar halda áfram að flóa, eftir að hann kemur heim til sín héðan frá Alþ.

Ég hefði talið, af þeim ástæðum, sem ég hef hér greint, að þessi þáltill. gæti varla náð tilgangi sínum, nema einhver heimild væri fyrir ríkisstj. til þess að verja fé úr ríkissjóði í þessu skyni. Og ég er því ákveðnari að leggja til, að þessari heimild verði bætt við þáltill., þegar ég heyri, að það er alls ekki meining hv. frsm. landbn., að sjómenn fari að gefa bændum fé með því að selja síldarmjölið undir verði.

Ég tel, að sé það yfir höfuð nauðsyn að gera slíkar samþykktir, sem hér liggur fyrir till. um, og þá sé nauðsynlegt, að þessi heimild sé fyrir hendi. Ég vil skjóta því til hv. flm. brtt. við þáltill., hvort þeir vildu ekki taka brtt. þessa til greina og taka þáltill. upp í sameinuðu þingi, því að þess mun þurfa með til þess að samþ. í þáltill. heimild til fjárveitingar. En eins og þáltill, er, er hún fyrir bændastéttina ákaflega lítils virði, ef ekki fylgir slík heimild, sem ég hef getið.