26.04.1941
Efri deild: 45. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (3597)

116. mál, hestavegir meðfram akbrautum

*Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég hef e. t. v. skýrt þetta litla mál nægilega í grg. till., og þar að auki ætti málið að liggja opið fyrir öllum hv. þdm. Það, sem vakir fyrir mér, er að rannsaka, hversu dýrt yrði að koma upp sæmilegum reiðstígum, þannig að menn gætu komizt leiðar sinnar á hestum, án þess að vera í bílaumferðinni á akbrautunum. Fjárhagslega séð er það mikill kostnaður fyrir þjóðina að neyða menn til að fara með bílum og eyða erlendum gjaldeyri, þar sem hægt er að komast af með hesta. Þó legg ég enn þá meiri áherzlu á, að í sveitum verði hesturinn, eins og hann hefur verið hingað til, fararskjóti, félagi og tryggðavinur, sem menn afrækja aldrei.

Það má segja, að tillagan sé nokkuð óákveðin, þar sem talað er um reiðvegi með öllum helztu akvegum landsins. Svo víðtækrar rannsóknar mun þó ekki þurfa, — nóg ef athugun er gerð með nokkrum helztu þjóðvegum fjölmennra héraða, þá geta menn á Alþingi nokkurn veginn gizkað á hitt.

Ég veit, að hv. þm. skilja, hver breyting gerzt hefur á síðustu árum. Til dæmis má taka hestasveitir eins og Austur-Húnavatnssýslu eða Skagafjörð, þar sem orðið er a. m. k. mjög óþægilegt að brúka hesta á aðalþjóðveginum, svo að menn hafa hneigzt til að nota bíla í staðinn innan héraðs.