22.04.1941
Sameinað þing: 7. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (3616)

65. mál, orlof

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Ég skal játa, að ég gleymdi að gera till. um að vísa málinu til n. Það er rétt hjá hv, þm. V.-Húnv., að þetta mál á að fara til allshn.

Um hitt atriðið, sem hann minntist á, get ég verið honum sammála, að æskilegt er, að þetta gæti orðið á sem víðtækustum grundvelli, en við vildum á fyrsta stigi ekki fara lengra en till. greinir, en ég er honum alveg sammála um, að fólk í sveitum, á alveg sama rétt og sömu þörf á að eiga sín orlof og fólk í kaupstöðum, a. m. k. það, sem vinnur að staðaldri við störf í sveit. Ég tel því rétt, að þetta komi til athugunar, hvort ekki verður hægt að samræma úrlausn þessa máls fyrir það vinnandi fólk til sjávar og sveita.

Hv. 3. þm. Reykv. þarf ég engu að svara. Hann undirstrikaði flest, sem er í till. Um greiðslur fyrir störf n. skal ég ekki segja margt. Það verður að koma undir mati þeirra, sem koma til með að ráða mönnunum, hvort þetta er umfangsmikið eða ekki, en það er alls ekki víst, að sá maður, sem Alþýðusambandið skipar, verði frá sambandinu, og sama máli getur orðið að gegna hjá atvinnurekendum. Það er vitanlega óvíst, hvaða mann þeir settu í þessa n. og hvort hann gæti verið án þóknunar, svo að ég geri enga till. um það efni. Yfirleitt hefur verið svo um minni háttar mál, sem mþn. hefur fjallað um, að greitt hefur verið fyrir það starf.