14.06.1941
Sameinað þing: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3619)

65. mál, orlof

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hafði flutt á þskj. 250 nokkrar brtt. við þessa þáltill., sem ég hef skýrt frá við fyrri umr. málsins. En eins og málið liggur fyrir samkv. nál. frá allshn., get ég fallizt á það og mun taka aftur þessar brtt. mínar, því að hér er nokkru breiðari grundvöllur en lagður var með þeim, og finnst mér það réttara. Ég vil álíta, að í till. allshn., þar sem talað er um að leita tillagna verkalýðs- og vinnuveitendasamtaka, sé ekki eingöngu átt við Alþýðusambandið, heldur líka þau félög, sem ekki eru í landssamtökunum, eins og Dagsbrún og ýmis stærstu verkalýðsfélögin í bæjunum. Það munu vera um 6 þús. verkamanna, sem eru utan Alþýðusambandsins, en í þessum almennu samtökum. Að öðru leyti get ég fallizt á þessa till.