23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í D-deild Alþingistíðinda. (3625)

158. mál, styrktarfé til skálda, rithöfunda, vísindamanna og listamanna

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég þarf ekki að tala langt mál fyrir þessari till. Á síðastl. ári hafði menntamálaráð svo lítið fé til umráða, að nokkrir þeirra, sem áður höfðu notið styrks skv. 15. gr. fjárl., fengu engan styrk og alltaf bætast nýir menn í hóp þeirra manna, sem leitast við að fást við listir og vísindi í landinu. Ég skal ekki ræða það, hve mikla þýðingu slík viðleitni hefur fyrir þjóðfélagið, þrátt fyrir það, þótt aðstaða þessara manna sé hin erfiðasta. Alþ. hefur margsinnis sýnt, að það álítur, að þessi gróður sé þess verður, að að honum sé hlynnt. — Það er vel, að æ bætist í hóp þessara manna, en þær 80 þús. kr., sem menntamálaráð hefur til úthlutunar til styrktar þeim, hrökkva skammt, og hafa sumir þeirra, sem Alþ. hafði áður viðurkennt sem maklega slíks styrks, orðið afskiptir.

Fjvn. hefur haft þetta mál til meðferðar og orðið sammála um að hækka styrkinn um 10 þús. kr. að því er árið 1942 snertir. Er till. þessari ætlað að bæta úr þessum fjárskorti að því er árið 1941 snertir, með því að heimila fjmrh. að greiða 8000 kr. til menntamálaráðs til viðbótar framlagi í fjárl.

Ég skal leyfa mér að nefna nöfn þeirra manna, sem ætlazt er til, að njóti þessa styrks, en það eru þeir Eggert Stefánsson söngvari, Einar Markan tónskáld, Kristinn Pétursson málari, Sig. Skagfield söngvari og Þórarinn Jónsson tónskáld.

Þórarinn Jónsson, sem dvelur nú í Berlín, hefur ekki áður verið í fjárl., en honum mun hafa verið greiddur styrkur úr ríkissjóði í öðru formi.

Ég þarf ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vænti, að till. verði, að umr. lokinni, vísað til síðari umr. og fjvn.