28.03.1941
Neðri deild: 25. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

3. mál, tollheimta og tolleftirlit

*Frsm. (Stefán Stefánsson) :

Þegar eftir hernám Íslands fóru viðskipti að hefjast milli Íslendinga og hinna brezku hermanna. Íslendingar keyptu vörur af brezku hermönnunum, áttu við þá vöruskipti og þágu af þeim gjafir. Af þessu leiddi tjón fyrir ríkissjóð, þar sem ekkert innflutningsgjald var greitt af þessum vörum. En þar sem engin 1. voru til, sem bönnuðu slík vöruskipti, taldi ríkisstj. rétt að setja bráðabirgðal., þar sem slík vöruskipti væru bönnuð og lagðar við sektir eða varðhald.

Fjhn. var sammála um, að full ástæða hafi verið til að setja þessi bráðabirgðal., en telur hins vegar erfitt, ef ekki óframkvæmanlegt, að framfylgja þeim til hins ýtrasta, þegar um smágjafir er að ræða. Telur n. ekki ástæðu til að ganga of langt í þessum efnum.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. N. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.