22.04.1941
Sameinað þing: 7. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (3630)

71. mál, milliþinganefnd um skólamál

Flm. (Pálmi Hannesson) :

Við hv. 2. þm. Árn. berum hér fram till. til þál. um skipun milliþn. um skólamál. Hlutverk þeirrar n. á að vera að íhuga skólakerfi landsins allt í heild og gera till. um samræmingu þess og annað það, sem þeirri n. mætti þykja horfa til bóta frá því, sem nú er.

Mér finnst þeir óskipuðu stólar hér í hv. Alþ. mæla sínu máli um það, að hv. þm. telji ekki feitt á stykkinu, þar sem ræðir um skólamálin. En þegar mikið þykir við liggja, eru hv. þm. manna fúsastir til að halda því fram, að uppeldi æskulýðsins sé undirstaða undir þrifnaði þeirrar kynslóðar, sem koma skuli til að taka við af okkur. Nú er þó áhuginn ekki meiri en raun ber vitni, þegar ræða á slíkt þjóðþrifamál hér í Sþ.

Eins og kunnugt er, þá eru fræðslul. frá 1907 kjarni þeirrar lagasetningar, sem nú gildir um fræðslumál þjóðarinnar. Þessi lagasetning er nú orðin allgömul, og hafa ýmis ákvæði fræðslul. sætt gagnrýni úr ýmsum áttum. Mönnum þykir hin síðari ár sem barnafræðslan komi ekki að því haldi, sem til var ætlazt, og margir álíta jafnvel, að barnafræðslan nú sé ekki jafngóð og áður var, meðan heimilin áttu að annast fræðslu unglinganna. Hins vegar hafa verið reynd mjög mörg nýmæli um barnafræðslu. Ýmsir barnakennarar hafa sýnt lofsverða viðleitni um að taka til prófunar margar nýjungar, sem komið hafa erlendis frá og mikill vafi leikur á, hvort hér eiga við. En lítið er hægt að segja með vissu um, hvort þessar tilraunir hafi veitt niðurstöður í þessum efnum.

Nú þykir okkur flm, þessarar þáltill. mál til komið, að þetta mál, barnafræðslan í landinu, verði tekið til rækilegrar endurskoðunar og því fengin sú skipun, sem telja má að hæfi þeim tíma, sem við lifum á, og þær endur bætur verði teknar upp, sem reynslan ber það vitni, að hér eigi við af þeim nýjungum, sem reyndar hafa verið og verða.

Í annan stað er ungmennafræðslan í landinu. Henni hefur verið skipað með tvenns konar l., annars vegar með l. um héraðsskóla og hins vegar með l. um gagnfræðaskóla. Og í mörgum kaupstöðum, og þá fyrst og fremst í Reykjavík, er hvergi nærri nógu vel séð fyrir fræðsluþörf unglinga. Og ég skal geta þess um leið, að það hefur komið fram af hálfu skólanefndar Gagnfræðaskóla Reykvíkinga till., eða reyndar viðleitni í að stofna hér í Reykjavík nýjan menntaskóla, og það mál í sjálfu sér er allmikið og þyrfti náttúrlega nokkurrar rannsóknar við.

Það gegnir nákvæmlega sama máli um unglingaskólana og framhaldsskólana eins og um barnaskólana, að þeir hafa starfað hér um nokkurt skeið þannig, að ýmsar nýjungar hafa verið reyndar. En fast kerfi um þá hefur ekki verið skipað.

Í þriðja lagi hafa vaxið upp fyrir utan þessi kerfi ýmsir sérskólar, og nú eru uppi till. í frv.formi hér á þingi um að stofna enn skóla, sem í mjög veigamiklum atriðum liggja utan við skólakerfi landsins.

Ég hygg, að þessi rökstuðningur, auk þess, sem er í grg. þáltill., muni nægja til þess að benda hv. þm. á, að það muni vera eðlilegt að skipa þá n., sem þáltill. ræðir um, sem taki fræðslumál þjóðarinnar í einu lagi til samfelldrar prófunar og geri síðan till. um skipun skóla- og fræðslumála landsins að lokinni þeirri rannsókn.

Ég skal geta þess, að við höfum ekki til tekið tölu þeirra manna, sem n. þessa skipi, ef þáltill. verður samþ. En mér mundi þykja eðlilegt, að fræðslumálastjóri hefði þar forsæti, og væri í raun og veru eðlilegt, að hann gæti unnið með skólamönnum, bæði frá barnaskólum og síðan með mönnum frá ungmennaskólum og loks mönnum frá æðri skólum þannig, að ekki störfuðu alltaf sömu menn í n., heldur skiptist það nokkuð eftir því, hvaða hluta skólakerfisins væri verið að rannsaka og gera till. um. Vafalaust væri mjög æskilegt, að þessi n. hefði samband við og umr. við ýmsa, sem ekki beint sinna skólamálum, og á ég þar við skólanefndir og enn fremur við menn, sem taka við nemendum frá ýmsum skólum, bæði ungmennaskólum og sérskólum, því að þeir sjá oft alveg eins vel og við skólamennirnir, hvar skórinn kreppir í þessum efnum, og má vafalaust margt af till. þeirra læra.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þennan rökstuðning, en óska, að þessi þáltill. fái að ganga gegnum síðari umr. og verði vísað milli umr. til hv. allshn.