22.04.1941
Sameinað þing: 7. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (3631)

71. mál, milliþinganefnd um skólamál

*Eiríkur Einarsson:

Ég vildi nú ekki kveðja mér hljóðs til þess að segja nokkur orð um þessa þáltill. af þeirri ástæðu, að ég vildi láta mig svo miklu máli skipta meginatriði hennar, að skólamálin í landinu verði athuguð gaumgæfilega á svipaðan hátt og kemur fram í tillgr. sjálfri og frsm. þáltill. gerði nú nokkra grein fyrir. Að vísu virðist ekkert vera við það að athuga, þó að merkileg málefni verði rædd og athuguð til væntanlegra endurbóta, og það sem gaumgæfilegast, því að allir munu á einu máli um það, að þarna sé ýmsu ábótavant, sem þá einnig gildir um fleiri mál. Hitt geri ég mér í hugarlund að sé vafamál, hvort þetta er sú hentugasta leið í þeirri viðleitni, að ríkisstj. skipi enn nýja mþn. um skólafræðslu manna til þess að athuga og gera till. í þessum efnum. Ég veit að vísu, að til eru skólafróðir menn til slíkra athugana. En það hefur verið svo margt unnið af þeim sömu mönnum í skóla- og fræðslumálunum, að okkur hinum finnst það kannske eitthvað líkt því að borða smjör við smjöri, þegar till. koma ofan á till., og allt úr sama heygarðshorninu, frá mönnum með sömu lífsskoðunum, án þess þó að ég vilji leggja dóm á, að þær skoðanir séu ekki góðar og hentugar.

Það, sem hvatti mig til þess að segja hér nokkur orð, er það, sem hér sannast enn, eins og fyrri daginn, hvað þeir, sem ráða heildarskipun skólamálanna, bæði löggjafarvaldið sjálft og svo framkvæmd skólamálanna í landinu, — hvað þessir aðilar hafa oft farið um málin fálmandi höndum. Vil ég í því sambandi benda á það, að hér nefndi hv. frsm. þáltill., og ég álít mjög réttilega, það, sem honum var efst í huga og hann áleit, að kæmi til endurskoðunar, barnafræðslul. frá 1907. En hann hafði dálítið óvissar markalínur t. d. um sambandið milli héraðsskóla og gagnfræðaskóla, og enn talaði hann um möguleika á, hvort eigi að stofna nýjan menntaskóla til viðbótar. Og fleira minntist hann á í ræðu sinni.

En þegar þetta verður tekið til athugunar, hvort skipuð verði mþn. til að athuga málið, þá vil ég slá því föstu, að það eru til viss ákveðin skólamál hér í landinu, sem liggja fyrir utan allar deilur og er ekkert álitamál um, hvern rétt eigi á sér. Það hefur sannazt á þessu þingi, því að nú á þinginu hafa verið borin fram eitt eða tvö frv. um stofnun skóla án þess að í sambandi við þau hafi verið talað um endurskoðun á skólamálunum yfirleitt. Á ég þar við frv. um væntanlegan húsmæðraskóla í Reykjavík, og mig minnir, að einnig sé fyrir þinginu frv. um gagnfræðaskóla í vissum smærri kaupstöðum landsins. Um þetta er ekkert sérstakt að segja, þó að þetta þyki nauðsynlegir skólar. Þetta, að ungar stúlkur hér í Reykjavík eigi að nema sem bezt það, sem heyrir til þeirra framtíðarstarfi, það er svo sjálfsagður hlutur, að það er vitað, að þó að einhvers staðar fari aflaga eitthvað um okkar skólamál, t. d. fræðslu unglinga, þá er þetta mál, húsmæðrafræðslan í Reykjavík, alveg hafið yfir þá deilu og ekkert álitamál, hvort rétt sé og sjálfsagt. Svo að ég álít flutning þess frv. alveg réttmætan, alveg án tillits til þess, hvað gert verður við þessa þáltill. Og þær till , sem hv. l. þm. Skagf. kom með, eiga rétt á að ráðast hér, þrátt fyrir það, þótt húsmæðraskóli þessi yrði stofnaður. Þessi húsmæðraskóli á fullan rétt á sér.

En það eru fleiri skólar, sem eiga sama rétt á sér, og það eru bændaskólarnir í landinu. Ég varð til þess snemma á þessu þingi að bera fram frv. til 1. um breyt á 1. um bændaskóla landsins, sem laut að því, að þeim væri fjölgað um einn, sem kæmi þá á Suðurlandssvæðinu. Þetta virðist vera sanngirnismál, með tilliti til þess, að þeir tveir bændaskólar, sem fyrir eru, á Hvanneyri og Hólum í Hjaltadal, þeir eru annar í meginlandsfjórðungnum fyrir norðan, en hinn í Borgarfjarðarhéraði. Og þá virðist ekki úr vegi, að Sunnlendingar eigi rétt á einum slíkum skóla, ef á annað borð er rétt að fjölga slíkum skólum. Þegar ég kom fram með þetta frv., þá var málefni mitt stutt á alveg sérstakan hátt af hæstv. landbrh., sem og var rétt og sanngjarnt, með því að hann lét þess getið, sem mun rétt vera, að aðsókn bændaefna til bændaskólanna væri svo mikil, að á síðasta ári hefði ekki verið hægt að veita móttöku til náms á Hvanneyri nema einum þriðja hluta af umsækjendum. Þarna kemur fram álit bændastéttarinnar sjálfrar á bændaskólunum.

Við erum allir á einu máli um það, hvers virði það er að eiga þak yfir höfuð barna og mæðra úr Reykjavík yfir sumarið. Og við eigum að vera alveg eins efalausir um það, að bændaefnin í sveitunum eigi að mæta svo miklum skilningi, að bændur landsins eigi að vera álitnir þess verðir að eiga þak yfir sonu sína, til þess að þeir, geti stundað nauðsynlegt nám, sem lýtur að aukinni þekkingu og menningu bændaefna viðvíkjandi framtíðarstarfi þeirra. Svo að þetta mál ætti að vera algerlega hafið yfir allar smáskítlegar kenjar og deilumál. Það er svo réttlátt mál, hreint og ákveðið, að það vinnur sigur.

Þegar þessi ummæli voru komin um málið frá hæstv. ráðh., að bændaskólarnir væru svona vel sóttir, að það yrði að vísa fjölda umsækjenda frá, og eftir að það er einnig vitað, að þeir nemendur, sem koma þaðan, hafa ekki farið í neitt geitarhús að leita sér ullar, og þeir, sem þaðan koma, koma með staðfastari ásetning um að verða sveitabændur heldur en þegar þeir fóru á skólana, — hvers vegna þarf þá að bíða eftir þessari endurskoðun á fræðslul. að öðru leyti með tilliti til svona lagaðs skólahalds?

Ég álít, ef hæstv. Alþ. fæst ekki til að samþ. frv. um breyt. á 1. um bændaskóla eins og það liggur fyrir, að það sé löðrungur á bændur á Suðurlandi. Ég veit ekki, hvort allir sunnlenzkir bændur gera sér þetta ljóst enn sem komið er. En ég veit, að sunnlenzkir bændur munu veita þessu máli glögga athygli margir hverjir. Þess vegna hygg ég, að það sé í alla staði réttlátt, að allir, sem eiga um það mál að segja, snúi sér að því óhikað að leyfa framgang þessum sjálfsögðu fræðslumálum, sem eru húsmæðraskóli í Reykjavik og bændaskóli sunnanlands, án tillits til þessarar endurskoðunar á skólakerfi landsins. Því að það þarf enga endurskoðun á skólakerfi landsins til þess að segja það með fullri vissu, að þessir skólar, húsmæðraskóli í Rvík og bændaskóli á Suðurlandi, eigi hvað sem öðrum fræðslumálum líður, fullan rétt á sér, því að þessir skólar eru vængirnir, sem æskan á að safnast undir, en ekki að dreifast frá. Mér finnst það tvístig á hæstv. Alþ. viðvíkjandi þessum tveimur málum, ef um þau gætir ómaklegs ósamræmis með tilliti til fræðslu í slíkum efnum annars staðar á landinu, sem ég vildi að í meðförunum mætti sannast, að er á misskilningi byggt, og dytti því niður af sjálfu sér, svo að það, sem á rétt á sér í þessum efnum, mætti ná að ganga fram.

Um þetta sjálfsagða málsatriði þótti mér illt, að gæta skyldi slíks ósamkomulags. Ég vildi, að það fengi réttlátan framgang, sem á rétt á að ganga fram.