16.06.1941
Neðri deild: 81. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3645)

171. mál, persónutrygging vegna ófriðarins

*Flm. (Jóhann G. Möller) :

Ég gat þess í nál. allshn. þessarar d. um frv. til 1. um ófriðartryggingar, að ég teldi það nokkurn ágalla á því, að það gerði ekki ráð fyrir persónutryggingum vegna ófriðarins. Ég hafði hugsað mér að flytja brtt. við þetta frv. en eins og hv. þm. vita, er með þessum l., sem afgr. eru út úr d. í dag, svo ákveðið, að allar fasteignir og vörubirgðir eru tryggðar sameiginlega með skatti á alla landsmenn. Það eru allar fasteignir tryggðar, hversu nauðsynlegar eða ónauðsynlegar sem þær eru, og það eru allir lausafjármunir landsmanna, hversu lítils virði, sem þeir kunna að vera, og allar vörubirgðir tryggðar með þessum l. En það, sem ekki er tryggt, það er það, sem að mínu viti er dýrmætast af öllu, það eru mannslífin sjálf.

Ég sé við nánari athugun, að það var ekki eðlilegt, að persónutryggingar yrðu felldar inn í frv. um ófriðartryggingar, vegna þess að það mál er annars eðlis, en engu að síður furðar mig á því, að ríkisstj. skuli ekki hafa látið undirbúa frv. um persónutryggingar. Það liggur í augum uppi, að það hlyti að vera mikil fróun þeim, sem efnalitlir eru og mikillar hjálpar þurfa, ef illa til tækist, ef þeir gætu átt þess von að fá nokkrar bætur til handa sínum, þar sem allir legðu eitthvað fram. Ég held, að sú hlið málsins sé þess eðlis, að það sé óþarft að fara um hana fleiri orðum.

Við höfum á. Alþ. gengið frá 1. um, að sjómenn skuli líftryggðir mjög sæmilega vegna ófriðarins. Það er talið, að hættan á sjónum sé meiri en á landi. Það er ekkert nema gott um það að segja, að sjómenn eru tryggðir, en hitt liggur þá jafnframt fyrir, að svipuðum tryggingum verði komið á fót fyrir þá, sem í landi eru, því það virðist augljóst, þegar þær hernaðaraðgerðir eru athugaðar, sem hér fara fram, að hættan á, að hér verði líftjón, magnast með degi hverjum. Það væri þess vegna í fullu samræmi við það, sem gert hefur verið til þess að tryggja sjómennina, að hér væri komið á sameiginlegri persónutryggingu landsmanna vegna ófriðarins, sem miðaðist við það, að menn færust á þurru landi af völdum ófriðarins. Ég býst við, að einhverjum kunni að detta í hug, að þessi áhætta sé svo mikil, að það verði okkur ofviða, en ef við lítum á mannfall annarra þjóða af völdum loftárása, t. d. Englendinga, sem hafa átt við geigvænlegar loftárásir að búa, þá sjáum við, að miðað við smæð okkar þjóðar, þá yrði þetta mannfall tiltölulega lítið. Ég ætla, að ef miðað væri við mannfjöldann, þá hefðum við misst innan við 100 manns. En vitanlega getum við ekki gert okkur í hugarlund, að ef til loftárása skyldi koma hér, þá yrðu þær svo magnaðar sem þær hafa orðið á sjálft England. Þess vegna er ekki rétt að miða við hlutfallstöluna þarna á milli. Okkar tala yrði sennilega miklu lægri. Þar af leiðandi yrði áhættan miklu minni.

Ég hef við nánari athugun komizt að raun um, að heppilegast muni vera, að ríkisstj. undirbúi þetta mál, og ég hygg, að það mundi ekki mælast illa fyrir, þó ríkisstj. setti bráðabirgðalög um þetta, og ég tel í rauninni engan vansa fyrir Alþ. að gefa henni óbeinlínis það vald, þó það sé sitjandi þegar þetta mál kemur fram.

Það eru mörg atriði, sem þarf að athuga í þessu sambandi, t. d. um, hvort sú trygging, sem hér er um að ræða, ætti að vera almenn skyldutrygging eða hvort ætti að gefa einstaklingum kost á að tryggja sig fyrir tiltölulega lágt gjald og með auðveldara móti en í venjulegum líftryggingarfélögum. Þá er það líka athugunarvert í þessu sambandi, hversu víðtækar tryggingarnar ættu að vera, hvort þær ættu að ná til hvers manns eða hvort ætti að binda þær eingöngu við þá, sem eru framfærendur annarra eða fyrirvinnendur á einhvern hátt. Einnig þarf að athuga, hversu há sú upphæð eigi að vera, sem tryggt er fyrir, og er tiltölulega auðvelt að komast að því, með því að rannsaka líftryggingarupphæðir hjá líftryggingarfélögum hér ú landi. Enn er líka spursmál, hver á að annast þessa tryggingu, hvort ríkið sjálft eigi að leggja eitthvað af mörkum til hennar, eða að hægt verði að ná samkomulagi um samstarf við þau líftryggingarfélög, sem nú starfa hér á landi. Ég skal geta þess, það ég hef átt tal við forstjóra Sjóvátryggingarfél. Ísl., og mér skildist, að ekki væri óhugsandi, að til samkomulags gæti dregið milli ríkisstj. og félagsins með því móti, að ríkissjóður yrði nokkurs konar endurtryggjandi eða bakhjarl, sem nú á sér stað um líftryggingu fyrir sjómenn. Annars hafa líftryggingarfélögin hér í bænum ekki álitið þessa hættu mjög mikla og hafa látið líftryggingarskírteini gilda líka um líftjón af völdum ófriðarins. Þess vegna ætti frekar að nást samkomulag um þessa hluti, og yrði þá hægt að komast hjá mörgum örðugleikum, og mundi það létta mjög undir framkvæmd málsins í heild. Svo er enn eitt atriði í þessu sambandi, og það er, hvernig eigi að leggja iðgjöldin á og hvað þau eigi að vera mikil, og mér fyndist eðlilegast, að lagður yrði nefskattur á alla borgara landsins. Hins vegar geri ég ráð fyrir, að þessi trygging kæmist ekki til framkvæmda, fyrr en tjónið er skeð, líkt og á sér stað með þær ófriðartryggingar, sem þingið hefur nýlega gengið frá og samþ. Það yrði vitanlega að leggja einhverja skatta á landsmenn til þess að hafa þessa tryggingu tilbúna og formlega, því að iðgjaldagreiðslur yrðu að vera með öðrum hætti heldur en þær, sem gert er ráð fyrir í sambandi við ófriðartryggingar.

Hvernig eigi að skipta landinu í áhættusvæði, þá er það mál, sem verður að leysa í sambandi við ófriðartryggingar, og ætti að geta gilt það sama um þetta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Ég hygg, að þessu máli fylgi hinar beztu óskir mikils þorra manna hér á landi, ekki sízt í Reykjavík. Ég vænti þess fastlega, að ríkisstj. láti rannsókn fara fram á þessu máli fljótlega og komi þessari tryggingu á fót með bráðabirgðal. sem allra fyrst.