16.06.1941
Neðri deild: 81. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (3646)

171. mál, persónutrygging vegna ófriðarins

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það er vel farið, að þessu máli skyldi vera hreyft hér á Alþ., og þessi till., sem hv. flm. hefur nú lýst, er þess eðlis, að mér finnst sjálfsagt, að hún verði samþ. og ríkisstj. taki til athugunar að Þinginu loknu og þegar tími vinnst til, hvaða ráðstafanir ætti að gera í þessu skyni.

Mér hafði dottið í hug, að til mála gæti komið að veita vissa heimild í löggjöfinni um ófriðartryggingar, almenns efnis, en eðlilegra mun vera að setja um þetta sérstaka löggjöf, þar sem um aðra tegund trygginga er að ræða en í frv. um ófriðartryggingar. Hins vegar er líka víst, að fyrir þessar persónutryggingar er algerlega óplægður akur hér á landi, og er annað mál með þær heldur en að tryggja fjármuni manna vegna stríðsaðgerða. Þessar síðarnefnda hafa verið framkvæmdar erlendis, þar sem til slíkra hluta hefur komið, en mér vitanlega hafa ekki verið settar almennar persónutryggingar vegna ófriðaraðgerða. Hins vegar er rétt, eins og hv, flm. tók fram, að bæði hér á landi og annars staðar hafa verið settar sérstakar tryggingar sjómanna, vegna slysa af ófriðarorsökum. Eins og hv. flm. tók fram, eru mörg atriði í þessu máli lítt rannsökuð, og mundi margt koma upp á teninginn við slíka rannsókn. En aðalatriðið er, að Alþ. sýni sinn vilja á þessum efnum og ríkisstj. sé þá tiltæk með framkvæmdina, ef á þyrfti að halda. Ég vil geta þess, að mér finnst rétt að fara þá leið að láta þessar tryggingar ekki koma til framkvæmda nema því aðeins, að slys beri að höndum, en hitt er jafnnauðsynlegt, að undirbúa löggjöf í þessum efnum, ef til slíks kynni að koma. Ég get tekið undir það með hv. flm., að verði till. samþ., sem ég vona, mundi ríkisstj. telja sig hafa fullan þingvilja fyrir sinum ráðstöfunum, þó að hún setti bráðabirgðal. í þessu skyni, ef henni sýndist það réttast. Ég vil því mæla með, að till. verði samþ., og ég leyfi mér að fullyrða fyrir hönd ríkisstj., að málið verður tekið upp til gaumgæfilegrar athugunar, strax og tími vinnst til.