23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3650)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Flm. (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti! Þessu máli hefur verið hreyft nokkrum sinnum hér á hinu háa Alþingi, án þess að niðurstaða hafi fengizt. Þó er það svo með hag þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, að það er ekki unnt að láta niður falla kröfurnar um að rétta hlut þeirra.

Það er alkunna, að fjöldi manna lagði á sínum tíma hluta af sparifé sínu fram í því skyni, að Íslandsbanki yrði látinn starfa áfram, en að því ráði var nú ekki horfið, og það fé var notað sem hlutafé í Útvegsbanka Íslands h/f. Þessir hlutir hafa ekki gefið eigendum þeirra neinn arð, og bréfin hafa ekki þótt veðhæf. Þau hafa þar af leiðandi verið algerlega dauð eign í höndum þeirra manna, sem hafa þau nú, sem munu í flestum tilfellum vera hinir upprunalegu sparifjáreigendur.

Ég hef þráfaldlega haldið því fram, að Alþingi beri siðferðileg skylda til að rétta hlut þessa fólks, sem sýndi þann þegnskap að láta af hendi hluta af sparifjárinnistæðum sínum, í því skyni að forða hruni bankans. Aftur á móti voru aðrir, sem neituðu að leggja fram nokkurn hluta af því sparifé, sem þeir áttu, og sýndu þar með minni þegnskap, en þeir hafa haldið sinni eign óskertri. Nú er það svo með fjölda af þessu fólki, svo mörg ár eru liðin síðan þetta var gert, að margt af því er orðið efnalítið, flest komið á efri ár, og því ekki síður ástæðu til að sýna því hina fyllstu sanngirni. Allir vita, að dýrtíðin í landinu er tilfinnanleg, og Alþingi hefur gert margvíslegar ráðstafanir. Í þessu vetfangi var verið að samþ. eina slíka, til þess að hjálpa þeim, sem fá laun sín af opinberu fé, með uppbótum að vinna bug á kostnaðinum við að lifa, sem er orðinn mjög tilfinnanlegur. Þessir sparifjáreigendur, sem höfðu lagt fé sitt að banka með það fyrir augum, að það yrði þeim nokkur stoð í ellinni, verða fyrir hrapallegum vonbrigðum, ef Alþingi vill á engan hátt ganga neitt til móts við þá, og vilja ekki trúa því, að svo þurfi að vera.

Á síðasta þingi flutti ég þáltill. í Ed., þar sem farið var fram á, að ríkisstj. léti rannsaka, hve mikið fé hér væri um að ræða, hvernig því væri fyrir komið o. s. frv., og legði niðurstöðurnar fyrir það þing, sem nú situr. Með því að skýrsla ríkisstj. var ekki lögð fram, þegar komið var fram á þetta þing, þá var flutt fyrirspurn til ríkisstj. um þetta sama mál. Þeirri fyrirspurn hefur að vísu ekki verið opinberlega svarað af hæstv. ríkisstj., en hins vegar hefur hún látið mér í té upplýsingar þær, sem farið var fram á í fyrirspurninni, eftir öðrum leiðum, og hef ég tekið það sem gilt svar við fyrirspurninni, en hún gekk út á það að fá málið betur upplýst.

Eftir þeim upplýsingum, sem þá liggja fyrir og ég hef í höndunum frá hæstv. ríkisstj. um þetta mál, hefur stjórn Útvegsbankans upplýst, að þær innistæður í sparisjóði og á innlánsskírteinum, sem hér er um að ræða, sem með öðrum orðum eru orðnar til fyrir framlög þeirra mörg hundruð sparifjáreigenda á sínum tíma, muni nema rúmlega 1 millj. og 344 þús. kr. Í þáltill., sem hér er til umr., er farið fram á, að Alþingi heimili ríkisstj. að hlutast til um það, að eigendum hlutabréfa þeirra í útvegsbanka Íslands h/f, sem keypt voru á þann veg, sem ég hef lýst, verði gefinn kostur á að selja ríkissjóði þessi hlutabréf með hæfilegu verði. Þegar hér er talað um hæfilegt verð, þá er vitanlega átt við það, sem teljast má sanngjarnt verð á þessum hlutabréfum, eins og nú er komið. Mér er sagt, og okkur flm., af þeim, sem bezt þekkja hér til, að Útvegsbankinn hafi rétt hag sinn svo, að hlutabréfin séu nú raunverulega í meira verði heldur en þegar þessu máli hefur verið hreyft hér áður á Alþingi.

Ég hef rætt þetta mál bæði við hæstv. félmrh., sem er formaður bankaráðs útvegsbankans, og hv. þm. V.-Ísf., sem er einn af bankastjórum bankans, og mér er óhætt að segja það, að í þessum viðræðum við þessa tvo aðila hafi komið fram fullur velvilji til málsins og skilningur á því, að eitthvað þurfi að gera fyrir þessa hlutabréfaeigendur. Og með tilliti til þessa virðist, að hv. Alþingi væri óhætt að leggja líka nokkuð gott til málsins.

Ég vil enn fremur benda á það, að þessi till. er flutt af mönnum úr 3 flokkum þingsins, þeim sem standa að hæstv. ríkisstj., og miðar það enn fremur að því, að samkomulag geti orðið á Alþingi í þessu efni.

Það er engum vafa undirorpið, að það er réttlætismál að hjálpa til að gera einhverja eign úr þessum hlutabréfum, eins og nú er komið. Það er enn fremur engum vafa bundið, að það fólk, sem bréfin á, þarf einkum og sér í lagi nú á þessari hjálp að halda. Nú er sérstök þörf fyrir Það að geta gert þessi bréf að einhverjum peningum.

Ég skal taka það fram, að það er ekki tilætlun okkar flm., að einhverjir aðilar, sem kynnu að hafa eignazt þessi bréf fyrir lítið eða ekki neitt úr höndum hinna upprunalegu eigenda, njóti neins góðs af þessari till. okkar, þó að hún gangi fram. Okkur gengur það eitt til, að hinir upprunalegu eigendur, þeir menn, sem á sínum tíma lögðu fram hluta af innistæðum sínum, njóti góðs af málinu. Þeir, sem keypt hafa þessi bréf upp á „spekulation“, eru í okkar huga ekki teknir með. En hins vil ég vænta, að Alþingi muni nú vilja sýna þessu fólki, sem hér um ræðir og er dreift um allt landið, þá sanngirni að láta þessar eigur þeirra ekki verða alveg verðlausar með öllu.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál. Ég geri ráð fyrir, að það þyki viðeigandi, að þessari till. sé vísað til fjvn., og vil gera það að minni till. nú. Ég vil vænta þess, að sú n. afgreiði málið til þingsins, meðan tími er til að fá endanlega afgreiðslu við síðari umr., sem ákveðin er um þetta mál.