23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í D-deild Alþingistíðinda. (3651)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Gísli Guðmundsson:

Það er nú auðvitað rétt, eins og flm. till. gerði að till, sinni, að fjvn. hafi þetta mál til meðferðar.

Það er nú svo, að síðan þeir atburðir gerðust, sem eru ástæðan til þess, að þessi till. er flutt, eru liðin 11 ár, þ. e. a. s, síðan innistæðueigendur í Íslandsbanka, sem áður var, gengu inn á að láta innistæður sínar eða nokkuð af þeim verða hlutafé í Útvegsbanka Íslands h/f. Ég vil þannig vekja athygli á því, sem hv. flm. raunar gerði, að það er talsvert erfiðara við þetta mál að fást nú heldur en ef það hefði verið ætlunin að afgreiða það fyrir nokkrum árum síðan.

Hlutabréfin, sem út voru gefin 1930, hafa vitanlega í mjög mörgum tilfellum skipt um eigendur. Mér er ekki kunnugt, að hve miklu leyti, en það hlýtur að vera að allverulegu leyti. Sérstaklega hef ég ástæðu til að ætla, að á síðustu 2 árum hafi nokkur brögð verið að því, að þessi bréf skiptu um eigendur, og það kæmi vitanlega ekki rétt niður, ef aðstoð sú, sem ríkisstj. er ætlað að veita þeim, sem urðu fyrir rýrnun á sparifé sínu, kæmi til góða þeim, sem nú eiga þessi bréf og nú fengju aðstöðu til að selja þau með hagnaði.

Ég vænti þess, að hv. fjvn. athugi það gaumgæfilega, hvort þetta er yfirleitt framkvæmanlegt, svo að viðunandi megi teljast, og geri sér grein fyrir því, hvað þetta muni kosta ríkissjóð í framkvæmd. Hv. frsm. upplýsti, að þetta hlutafé muni nema um 1 millj. og 300 þús. kr., og mundi þá vera eðlilegt, að n. gerði einhverja grein fyrir því, á hvaða gengi hugsanlegt væri, að ríkissjóður keypti þessi bréf.

Ég stóð upp til þess að leggja áherzlu á þetta, sem hv. flm. minntist á, að mér virðist þetta mál vera nokkuð erfitt í framkvæmd eftir svona langan tíma, og það á tímum eins og nú, þegar ýmis verðmæti hafa breytzt og þar á meðal verðmæti hlutabréfanna í Útvegsbankanum.