23.05.1941
Sameinað þing: 19. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3653)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

*Sigurður E. Hlíðar:

Ég sé ekki ástæðu til að halda hér langa ræðu um þetta mál, þó að ég sé einn af flm. þess, þar eð fyrsti flm. þess hefur skýrt málið að fullu. Ég vildi þó geta þess, að auk þess, sem hann hefur átt sinn ríka þátt í, að þessu máli hefur verið hreyft hér á undanförnum þingum með þál. og fyrirspurnum til hæstv. ríkisstj., þá er núna farin að vakna meiri hreyfing úti um landið en nokkurn tíma hefur borið á opinberlega áður.

Ég vil geta þess, að ég hef hér í höndunum áskoranir í þessu máli frá allmörgum mönnum á Akureyri, sem þótzt hafa borið skarðan hlut frá borði í þessum viðskiptum sínum við bankann og ríkissjóð. Nú geri ég líka ráð fyrir, að það komi fram raddir annars staðar að með slíkar kröfur, og það er sennilega í sambandi við það, að hagur ríkissjóðs og bankans er miklu betri en verið hefur að undanförnu. Það er þess vegna álitið, að nú gæti frekar fengizt leiðrétting þeirra mála, sem ekki hefur fengizt áður.

Hv. þm. N.-Þ. gat þess í sinni ræðu, að bréfin hefðu sennilega skipt um eigendur á þessum tíma. Það má vel vera. Ég geri þó ráð fyrir, þar eð bréfin hafa verið lítils virði, að þau hafi verið lítil verzlunarvara. Ég held, að flestir þeirra manna, sem upprunalega gengu inn á þessi skipti, sitji með þau að mestu leyti enn þann dag í dag. Enn fremur gat hv. þm. þess, að erfiðleikarnir á því að kippa þessu í lag væru meiri núna, eftir svona langan tíma. Ég sé ekki, að það þurfi að vera því til fyrirstöðu núna, að það hafi ekki fengizt samþ. fyrr. Hafi það verið rétt að kippa þessu í lag fyrr, þá er það enn meiri réttlætiskrafa nú.

Það var gengið þannig að verki til að bjarga þessari stofnun, að óskað var eftir, að sparifjáreigendur létu sparifé sitt af hendi til þess að reyna að rétta við hag þessa banka, sem sjávarútvegurinn studdist að miklu leyti við. Við þessum tilmælum urðu fjölda margir, af því að þeir héldu, að þeir væru að bjarga öðrum aðalatvinnuvegi landsmanna. Eins og skýrt hefur verið tekið fram af fyrsta flm. till., þá er réttlætiskrafan enn ríkari fyrir þessa menn, þegar borið er saman við þá innistæðueigendur, sem urðu ekki við þessum tilmælum. Þeir hafa notið fullra réttinda sem innistæðueigendur og fengið rentur af sínum innistæðum eða fengið þær borgaðar út. En hinir, sem létu fé sitt af hendi, hafa ekki séð eyris virði, hvorki í rentum af hlutafénu né hlutabréfum, sem gefin voru út sem kvittun fyrir hlutafjáreign.

Ég vil enn fremur benda á, að það mundi ef til vill vera réttara að skjóta einu orði inn í þessa þáltill., sem af vangá hefur fallið niður. Ég veit ekki, hvort það nægir að koma inn á það í umr. eða koma þarf með brtt., en það er, að á eftir orðunum „af sparisjóðs- og innlánsskírteinainnistæðum“ komi: og hlaupareikningsinnistæðum. — Það má vel vera, að það nægi að benda á þetta í ræðu hér í sameinuðu Alþingi og þurfi þess vegna ekki að koma með brtt., enda hefur einn hv. þm. og bankastjóri umræddrar stofnunar haft það á orði, að þetta hafi fallið burt af vangá, en þurfi að koma fram í einhverri mynd.