16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (3662)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

Páll Zóphóníasson :

Herra forseti! Ég kvaddi mér hljóðs aðallega vegna þess, að þetta mál barst inn í umr. um fjárl. Þegar ég fór að líta yfir ræðurnar, sá ég, að ritarar þingsins höfðu ekki náð nema nokkru af þeim umr., sem þá fóru fram. Ég tel því rétt að rifja þetta dálítið upp fyrir þm., og eins vil ég fá það skjalfest í þingtíðindunum, sem þá var sagt. Þessar umr. byrjuðu vegna þess, að hv. þm. Vestm., sem var flm. þessarar till., vítti ríkisstj. fyrir það, að hún gæti ekki staðið saman um afgr. fjárl. „Þessir herrar geta ekki staðið saman um neitt,“ sagði hv. þm. Vestm. Þessu svaraði hæstv. forsrh. í sinni ræðu með því að segja, að hæsta till., sem fram hefði komið á Alþ. um fjárútgjöld fyrir ríkissj., hefði einmitt komið frá hv. þm. Vestm. sjálfum. Síðan svaraði hv. þm. Vestm. og sagði, að hann ætlaðist til, að fram færi á bréfunum mat, og svo endaði hann sína ræðu með því að segja, að sjálfsagt væri, að ríkissjóður keypti þessa pappíra, sem eigendunum væru einskis virði. Ég skaut þá inn í ræðu hans, hvort ríkið keypti pappíra, sem væru einskis virði. Því innskoti hefur þingritarinn ekki náð, en hins vegar kom svo svar hv. þm. til mín fram í ræðunni. En það er ljóst, að sjálfur hv. flm. þessarar till. hefur lýst yfir því í ræðu hér á hv. Alþ., að þetta væru pappírar, sem væru einskis virði. Nú skal ég ekkert um það segja, hvort þessi dómur er réttur eða ekki, en ég hygg, að það séu allerfiðir tímar til þess að meta, hvers virði þessi hlutabréf í Útvegsbankanum eru. Það mætti að vísu ætla, að þessi bréf væru í allháu verði nú, — kannske í „parí“, eins og hv. þm. Ak. virtist gera ráð fyrir í sinni ræðu. Ég vil ekki standa að því, að till. meiri hl. n. verði samþ., því að ég er viss um það, að ef ríkisstj. verður heimilað að kaupa þessi bréf, þá er enginn vafi á því, að það verður til þess, að það verða til fleiri forvaxtabréf heldur en þessi. Ef við rennum huganum til þess tíma, þegar Lárus Jóhannesson og Eyjólfur Jóhannsson gengu um til þess að svindla út úr mönnum þeirra innistæður undir fölsku yfirskini til þess að fá menn til þess að kaupa þessi bréf, þá finnst mér, að slíkt ætti að verða því nokkuð til varnaðar, að menn. fari nú að kaupa þessi bréf, sem þessir menn nörruðu út úr mönnum fé fyrir til að bjarga eigin innistæðum sínum og skjólstæðinga sinna. Ég vildi því helzt kjósa, að þessi till. verði felld, — mér finnst það ekki samboðið virðingu Alþ. samþ. slíkt. Ég vil hins vegar fastlega mæla með því, að till. minni hl. n. veiði samþ. og vona, að ríkisstj. stingi hinni í pappírskörfuna, svo að það þurfi aldrei til neinna slíkra kaupa að koma.