16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (3668)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég hélt, að það ætti að ljúka þessu máli án mikilla hrókaræðna, en nú er verið að draga inn í umr. alls konar almenn atriði.

Hv. þm. Vestm. minntist á, að það væri eðlilegt, að ríkið tæki nú við þessum hlutabréfum, þar sem eigendur þeirra hefðu á sinni tíð sýnt mikinn þegnskap. En ég verð að segja það, að eftir minni þekkingu á sögu málsins lagði ríkið fram fé, af því að hinir lögðu fram fé.

Ég vil þá líka benda mönnum á það, að það er ákaflega hæpið, þó að menn telji sig vilja láta framkvæma þetta mál þannig, að hægt sé með nokkrum ráðstöfunum að koma því til vegar, að hinir upphaflegu eigendur þessara peninga fái í öllum tilfellum að njóta þess, sem ríkið legði fram, ef bréfin yrðu keypt. Það sjá allir hv. þm. í hendi sér, hversu auðvelt er að fara í kringum slíkt ákvæði á alla vegu. Það gæti þess vegna orðið hending, hvort hinir upphaflegu eigendur nytu góðs af þessu eða ekki.

Ég þarf ekki að rökstyðja þetta nánar, því ég veit, að það sjá það allir, að það er mjög auðvelt að komast í kringum þetta atriði.

Þá er mér erfitt að skilja það, hvers vegna innistæðueigendur á sparisjóði eiga að njóta þess, ef bréfin yrðu keypt,. en ekki þeir, sem áttu innistæður á hlaupareikningi.