16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (3674)

172. mál, verðuppbót á mjólk og mjólkurafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég vil, í sambandi við þessa till., upplýsa það, sem raunar kom fram í ræðu hv. fim., að það er gert ráð fyrir því, að þær upp,bætur, sem Bretar hafa greitt á vörur, verði á íslenzkar útflutningsvörur og þær vörur, sem undir venjulegum kringumstæðum eru ætlaðar til útflutnings, en ekki er unnt að flytja út og selja með sæmilegu verði eins og á stendur. Uppbætur þessar eru hugsaðar sem greiðslur fyrir þau markaðstöp, sem íslenzkir framleiðendur og útflytjendur hafa orðið fyrir sökum styrjaldarinnar og þeirra ráðstafana, sem Bretar hafa gert til að koma í veg fyrir, að við flyttum okkar vörur til annarra landa. Ég veit hins vegar ekki, hvernig því yrði tekið af þeirra hendi, ef þeir yrðu látnir greiða hér fjárhæðir, sem greiddar yrðu sem uppbætur á þær vörur, sem við sjálfir verðleggjum á innlendum markaði. Það er úr leið, þegar hugsað er út frá þeirri reglu, sem uppbæturnar eru byggðar á. Ég veit ekki heldur á þessu stigi málsins, hve miklu þær upphæðir, sem greiddar verða, nema og hvernig hlutfallið á milli þeirra afurða, sem fluttar eru út, og mjólkurafurða verður.

Ég vil upplýsa það við þessa umr., að það er eðlilegt, að uppbæturnar hafi verið hugsaðar frá því sjónarmiði, sem ég hef nefnt. Þær eru greiddar vegna þeirrar stöðvunar, sem orðið hefur á sölu íslenzkra afurða til annarra landa, vegna hernaðarráðstafana Breta. En vitanlega kemur þarna undir verulegur hluti af mjólkurafurðum. Við höfum t. d. selt talsvert af ostum til Þýskalands, og sjálfsagt kemur uppbót á þær afurðir, að svo miklu leyti sem þær kunna að seljast fyrir lægra verð en eðlilegt er, að framleiðendur sætti sig við. Þar er fylgt þeirri reglu, sem uppbæturnar eru miðaðar við. Það er ekki hægt að selja þá til Þýzkalands, og þess vegna verður greidd uppbót á þá samkvæmt þeirri grundvallarreglu, sem uppbæturnar eru miðaðar við.

Ég vildi upplýsa þetta við umr., að það er þess vegna eðlilegt, að þetta sé í samningunum við Stóra-Bretland.