16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3679)

172. mál, verðuppbót á mjólk og mjólkurafurðir

Skúli Guðmundsson:

Ég efast um, að það sé hægt að samþykkja þessa till. til þál., sem hér er til umr.Hæstv. forsrh. hefur skýrt hér, hvernig þessu fé skuli varið eða hvernig ætlazt sé til, að með það sé farið, og hv. þm. er um það kunnugt.

Mér finnst eðlilegt, að þessu fé verði varið til bóta þeim, sem orðið hafa harðast úti vegna óhagstæðra siglinga og þar af leiðandi mikillar röskunar á útflutningi innlendrar framleiðslu.

Verð á vörum hér innanlands er algerlega óháð stríðinu, þ. e. a. s. að við erum ekki á neinn hátt bundnir við aðrar þjóðir með verðlag á þeim vörum. Hitt er annað mál, að ég tel sjálfsagt, að mjólkurframleiðendur eigi að fá bót á því tjóni, sem þeir hafa orðið fyrir vegna þess afturkipps, sem komið hefur í útflutninginn, en ég hygg, að þeir fái þær bætur jafnt, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki. — Ef aftur á móti þessi till. yrði samþ., þá óttast ég, að ýmislegt annað mundi sigla þar í kjölfarið, til dæmis að kjötframleiðendur færu fram á bætur o. fl. Ég geri ráð fyrir, að sú n., sem á að ráðstafa þessum sjóði, sé langt komin í störfum sínum, og yrði það því allvandasamt fyrir hana að fást við þetta, ef till. yrði samþ. En hitt er annað mál, að ég mundi hiklaust greiða atkv. með, að málinu verði vísað til ríkisstj., eins og till. hv. 2. þm. Eyf. fer fram á.