12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (3713)

115. mál, húsnæði handa hæstarétti

*Magnús Jónsson:

Það er slæmt, að enginn úr ríkisstj. skuli vera viðstaddur þessa umr., vegna þess, að till. er beint til hennar. Ég hef ekkert um þetta mál að segja annað en það, að ég er mjög kunnugur í þessu húsi, af því að ég vinn þar mitt starf. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég kem ekki auga á, hvar sé viðunandi húsnæði fyrir hæstarétt í háskólahúsinu. Þar eru að vísu tveir stórir salir, hátíðasalurinn og fyrirlestrasalur, sem hv. flm. till. minntist á, en að öðru leyti kemur þetta ekki til greina, hversu mikið pláss sem er í húsinu í heild. Hv. flm. minntist á það mikla pláss, sem læknadeildin hefur, og það eru tvær stórar kennslustofur, sem mundu reynast ófullnægjandi sem dómsalur. Þetta húsnæði er sundur bútað og innréttað með miklum kostnaði fyrir tilraunastörf, með borðum, vöskum og pípulagningum. Þarna starfar líka margt fleira en háskólinn. T. d. er komið þar fyrir matvælaeftirliti og fleiri vísindastofnunum, sem eru bezt settar þar. Það er því ekkert pláss í skólahúsinu fyrir hæstarétt eins og nú er. Það er alls ekki innréttað allt sem skólastofur, heldur eru líka herbergi og alls staðar eru fastir bekkir, nema í hátíðasalnum, sem ekki kemur til greina. Kennslustofur eru líka alveg ófullnægjandi í þessu skyni, því að þær stærstu rúma aðeins 100 sæti með því að fylla þær alveg. Þar sem hæstiréttur þyrfti talsvert pláss, yrði að taka sætaröð framan af, og um leið mundi gildi þeirra rýrna fyrir venjulega kennslu. Það húsnæði, sem kemur til greina, er á efstu hæð hússins, en þar er norðurendinn einn geimur. Ég veit ekki betur en að hæstarétti hafi einmitt gefizt kostur á þessu húsnæði. Það var skoðað og síðan afþakkað af réttinum, þar sem þetta væri eins og í venjulegum íbúðarhúsum, að mjög lágt væri undir loft, og allir þekkja, hvernig andrúmsloftið verður, þar sem fjölmenni er saman komið. Hæstiréttur óskaði ekki eftir því að vera í þessum stofum, og þær eru líka í sjálfu sér ófullnægjandi. Byggingarnefnd háskólans ætlaði þetta húsnæði fyrir söfn, enda er þar mikið af skápum, og ætlunin er í framtíðinni, að háskólinn komi þar fyrir sínum umfangsmiklu söfnum. Ég efast um, að þótt þessi till. verði samþ., þá fáist nokkur árangur, þar sem hið mikla pláss í þessu húsi er allt notað, þó að það sé ekki lengi á dag. Einn af fjölmennustu skólum landsins hefur nú sitt húsnæði í háskólahúsinu. Við vitum ekki, hversu lengi það verður, en búast má við, að hann verði þar, meðan stríðið stendur. Um það, að háskólanum beri skylda til að vera liprum í samningum við Alþ., þar sem það hefur lánað honum húsnæði í þinghúsinu, þá er ég viss um, að engri stofnun vildi háskólinn frekar lána húsnæði en hæstarétti. En vitanlega er ekki hægt að gera samanburð á því húsnæði, sem háskólinn hefur haft í alþingishúsinu, og því, sem hæstiréttur fengi í háskólahúsinu, ef þess væri nokkur kostur. Háskólinn var hér í mjög þröngum húsakynnum, og þegar geyma varð ryksugur inni í kennslustofunum, skolpfötur í anddyrinu og nemendur urðu að sitja í gluggum í tímum, þá er hægt að hugsa sér, að slíkt húsnæði var gersamlega ófullnægjandi. En úr þessu hefur nú verið bætt og það tekizt prýðilega. Ég er mjög hræddur um, að þessi till. verði gagnslítil, þó að hún nái samþ., enda finnst mér óviðkunnanlegt að vera að ráðstafa jafnvirðulegri stofnun og hæstarétti, án þess að hann háfi óskað eftir því. Mér finnst varla sæmandi að fara út um borg og bý og útvega húsnæði handa hæstarétti, nema óskað hafi verið eftir því, og þá yrði sjálfsagt, að ríkisstj. sæi um það. Nú vantar húsnæði fyrir ýmsar stofnanir ríkisins, aðrar en hæstarétt, og má því segja, að hann geti alveg eins beðið eftir, að úr því rætist.