12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3716)

115. mál, húsnæði handa hæstarétti

*Magnús Jónsson:

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, sem ég hef áður sagt. hað er tvennt ólíkt, hvort rúmmál innan veggja í einhverju húsi sé ríflegt fyrir þá stofnun, sem þar er, þó að ekkert húsnæði sé þar handa annarri stórri stofnun, og það, sem hæstiréttur þarf, er stór salur. Ég hef ekki kornið inn í dómsalinn í Winnipeg, en ég hef skoðað tvö eða þrjú dómhús í Ameríku, og þar voru mjög rúmgóðir salir á borð við hátíðasal háskólans. Auk þess var þarna mikið rúm, sem ætlað var vitnum og kviðdómendum. Einnig þyrfti skrifstofur í kringum þetta og til þess þyrfti að rífa talsvert af skilrúmum í háskólanum og breyta miklu. Hefði verið hugsað út í þetta, þegar húsið var byggt, var öðru máli að gegna. En ég get upplýst hv. 2. landsk. þm. um, að nú sem stendur er ekkert pláss í húsinu. Allar stofurnar eru notaðar, og þessi eini salur, sem um er að ræða, er langt of lítill fyrir dómsal. Ég skal ekki segja neitt um, hversu mikið hann er notaður á kvöldin, en ýmsir sendikennarar halda þar fyrirlestra sína. Í kennslustofunum eru yfirleitt ekki mörg sæti, — í þeim stærstu aðeins 40, og þær eru allar mikið notaðar. Salurinn yrði líka ónothæfur fyrir þessa fyrirlestra, ef mikið pláss yrði tekið fyrir dómara og málflm., enda er hann ekki stærri en svo, að þar rúmast aðeins 100 sæti. Ég er hræddur um, að hin kunna hugkvæmni hv. flm. till. hafi í þetta skipti verið helzt til mikil, því að ekkert húsnæði er til í háskólanum handa hæstarétti. Annars dettur mér ekki í hug að vera að leggja móti þessu máli. Háskólinn yrði verulega ánægður, ef hann gæti lánað svo veglegri stofnun húsnæði sem hæstarétti.

Það er langt frá því, að mér finnist, að þm. hafi ekki fullan rétt til þess að skipta sér af slíkum málum. Það kemur hvort sem er til þingsins kasta að sjá um húsnæði fyrir hæstarétt, en mér finnst, að hæstiréttur hefði fyrst átt að æskja þess. Eins og hv. flm. gat um, þá vantar tilfinnanlega húsnæði fyrir ýmsar stofnanir ríkisins, og ég verð að segja, að það er önnur stofnun, sem er enn þá verr sett en hæstiréttur, og það er stjórnarráðið. Það er ekki hægt fyrir einstakar stofnanir ríkisins að kvarta mikið, meðan sjálft stjórnarráðið er í einu af hinum elztu húsum bæjarins, sem er svo ófullkomið og þægindalaust, að þar er ekki einu sinni miðstöðvarhiti. Þegar hægt verður að halda áfram að byggja og ríkið hefur ráð á að bæta úr þessu húsnæðisleysi, verður hæstiréttur, sennilega látinn njóta góðs af.