12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í D-deild Alþingistíðinda. (3717)

115. mál, húsnæði handa hæstarétti

*Flm. (Jónas Jónsson) :

Út af þeirri till. hv. 2. landsk. þm. að vísa þessu máli til n., þá má gera ráð fyrir því, að nú verði hver dagurinn síðastur; sem þingið starfar. Ég býst heldur ekki við, að n. sinni málinu á þessu stigi. Þetta er till. til ríkisstj. um að leita fyrir, hvort þessi möguleiki sé fyrir hendi, og þó að n. færi að rannsaka málið og kæmist að endanlegri niðurstöðu, gæti staðið á ríkisstj. hvað framkvæmdina snerti. Mér er sama, hvort hv. þm. sýna skilningsleysi sitt á þessu máli með því að vísa því frá. Úr því að Bandaríkin gátu staðið við að koma sínum hæstarétti fyrir í þröngum húsakynnum, býst ég við, að hv. 2. landsk. þm. álíti okkar sæmd ekki misboðið, þó að hæstarétti verði komið fyrir í einni af stærstu byggingum bæjarins. Mínum tilgangi er að fullu náð með því að hreyfa þessu máli, og það snertir mig ekki, þó að menn hafi ekki meiri metnað fyrir sinni þjóð en það, að þeir láti eina af æðstu stofnunum ríkisins hafa aðsetur sitt í tugthúsinu.