09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í D-deild Alþingistíðinda. (3751)

58. mál, Sogsvirkjunin

*Jörundur Brynjólfsson:

Þvf fer fjarri, að ég ætli að hafa nokkuð á móti óskum Reykvíkinga um að stækka sína rafmagnsstöð, en þessi þáltill. snertir ekki það, hvort rafmagn verði leitt til Eyrarbakka og Stokkseyrar eða ekki, þar sem allur útbúnaður hefur verið til taks síðan stöðin varð fullgerð, og hefur ekki staðið á öðru en því, að ekki hefur fengizt efni í leiðslurnar. Sú orka, sem hér er um að ræða, er svo lítill hluti af orku Sogsstöðvarinnar, að Reykjavík munar ekkert um það, og geri ég ráð fyrir, að ekki mundi standa á Reykjavík að semja um verð á rafmagninu, ef þetta efni væri fengið.

Þó að svona sé ástatt um efni till., fer því fjarri, að ég hafi á móti því, að hún verði samþ. og gangi til n. En ég vænti þess, að lánast megi að fá efni í tiltölulega stutta línu niður í þessi kauptún, og að því lýtur till. þeirra hv. þm. Rang., sem er þó víðtækari að því leyti, að hún á við allt Suðurlandsundirlendið. Tel ég það kost á henni. En ég vil styðja það, að þáltill. fari til n. og fái þar þá búningsbót, sem hún þarfnast.