07.04.1941
Efri deild: 32. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

10. mál, innflutningur á sauðfé

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Það er ekki mjög margt um þetta mál að segja. Ríkisstj. hefur ákveðið með bráðabirgðal., að heimila megi að nota einblendinga af útl. fjárstofni til framhaldsræktunar kynblöndunar við íslenzkt fé til sláturfjárbóta. Síðan var leitað samþ. Alþ. á þessum bráðábirgðal., og hafa þau nú náð samþ. í Nd. og eru komin til Ed. Það, sem vakti fyrir hæstv. ríkisstj. með þessum nýmælum, er, að reynslan mun hafa sýnt, að það geti orðið til nokkurra bóta fyrir íslenzkan landbúnað að koma upp föstum kynblendingsstofni, því að þessir kynblendingar af erlendu og innlendu fé gefa af sér meira kjöt eða söluhæfara en fé af hreinu íslenzku kyni. Þessi kynblöndun er þess vegna til hagnaðar fyrir framleiðendur, því að með því móti verða dilkaskrokkarnir þyngri og kjötið í hærra verði sem útflutningsvara.

Einnig ber á það að líta, að talið er, að þessi blandaði kynstofn muni hafa meira mótstöðuafl gegn mæðiveikinni en hið innlenda fjárkyn, vegna þess að ættfeður hins erlenda fjár munu hafa smitazt af mæðiveikinni í ættir fram, og hefur því meira mótstöðuafl gegn mæðiveikinni en það fé, sem framætt þess hefur aldrei tekið veikina, enda þykir það hafa sýnt sig með Kleifaféð, sem talið er að eigi uppruna sinn að rekja til ensks fjár, er var flutt til Íslands á 18. öld. Ef það reynist rétt, er alveg sjálfsagt að gera tilraunir með þetta, en um leið þarf að gæta alls öryggis, svo að þessi kynblöndun fari ekki í handaskolum og verði til skemmda í sauðfjárstofninum.

Landbn. mælist eindregið til þess, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.