21.02.1941
Neðri deild: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

8. mál, innanríkislán

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Það má segja um þetta mál eins og þau, sem rædd voru hér í gær, og fleiri af þessum bráðabirgðal., að vafasamt er, að svo brýn nauðsyn hafi verið fyrir hendi fyrir þessum aðgerðum, að ástæða hafi verið til þess að gefa út bráðabirgðal. um þau efni, en það ætti að bíða eftir, að Alþ. taki ákvarðanir, ef unnt er. Slíkt hlýtur þó ætið að vera komið undir mati hæstv. ríkisstj., hvað hún telur rétt að gera í þeim efnum.

Um þetta mál er það að segja, að ríkisstj. þótti réttara að setja bráðabirgðal. um það efni, enda þótt komið væri allnærri Alþ., þegar þau voru gefin út, en það var 16. jan. síðastl.

Ástæðurnar fyrir því, að þetta lán var boðið út innanlands; eru tilgreindar í grg., sem fylgir bráðabirgðal. Það er öllum þm. vitanlegt, að innieignir hafa safnazt upp í Englandi í sterlingspundum, og bíður ríkissjóður einnig allmikið tjón við það, því að af þessum innieignum fást litlir vextir, en aftur á móti eru allháir vextir greiddir af lánum. Það þykir því rétt, eftir því sem ástæður leyfa, að nota þessar innistæður til þess að greiða lánin. Nú stóð þannig á, að eitt af lánum ríkissjóðs var orðið 10 ára hinn 1. nóv. síðastl., og mátti í raun og veru segja því upp til greiðslu með 6 mánaða fyrirvara, þannig, að greiðsla færi fram 1. maí næstk. En uppsögn fór þó ekki fram, og var það meðfram vegna þess, að athygli var vakin á því, hvort ekki mundi vera hægt að leysa þetta lán inn á frjálsum markaði og fá það jafnvel eitthvað undir nafnverði.

Eins og hv. þm. vita, er íslenzka krónan nú í lágu verði í samanburði við sterlingspund og verður væntanlega fyrst um sinn. Þess vegna hefði sjálfsagt verið réttmætt að vænta þess, að takast mætti að fá lán á eitthvað lægra gengi en áður. Þær tilraunir báru þó engan árangur, því að þessi lán í Englandi eru yfirleitt í fárra höndum og gefa háa vexti og miklu hærri vexti en völ er á að fá hér á landi. Þess vegna var enginn von til þess, að hægt væri að kaupa upp þetta lán á frjálsum grundvelli, og þá lá ekki annað fyrir hendi, ef lánið átti að greiðast, en að segja því upp og borga það með sex mánaða fyrirvara. Innanríkislánið, sem heimilt er að taka samkv. þessum bráðabirgðal., er að vísu ekki nema nokkur hluti af því láni, sem tekið var í Bretlandi árið 1930, því að það er nú að eftirstöðvum 510400 sterlingspund, eða nálægt 13 millj. í íslenzkum krónum. En ætlazt er til, að lánsútboðinu verði haldið áfram hér innanlands, og er þess að vænta, að Alþ. athugi þá leið. — Vill ekki hæstv. forseti biðja þm. að gefa hljóð. (Forseti hringir). Ég sé, að hv. þm. hafa annað að gera en að hlusta á þetta og ætla því að ljúka máli mínu, en vil vænta þess, að frv. verði vísað til fjhn.