10.03.1941
Neðri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (390)

8. mál, innanríkislán

*Einar Olgeirsson:

Það er að sjálfsögðu rétt að borga lán það, sem um hefur verið rætt, og sem flest erlend lán, en það, sem gefur tilefni... til athugasemda, er aðferðin, sem stj. hefur til þess að afla fjár til greiðslu lánanna. Það hefði verið miklu eðlilegra, að stj. hefði gefið út bráðabirgðal. um afnám 1. um skattfrelsi útgerðarfélaganna heldur en bráðabirgðal. um lántöku til handa ríkissjóði. Með slíkum l. hefði verið hægt að komast hjá því að bjóða út innanríkislánið. Þá er það líka athugasemdavert, hversu sterlingspundinu er haldið dýru. Það er skráð hér á kr. 26.22 á sama tíma, sem það er ekki skráð nema 20 kr. í Færeyjum. Með þessari vitlausu skráningu pundsins er, hvað þetta 13 millj. kr. lán eitt snertir, kastað um 3 millj. kr., sem beinlínis er verið að skaða almenning um. Hins vegar auðgar það að sama skapi nokkra einstaklinga. Þeir fá pund sín yfirfærð með allt of háu verði. Sé stj. sjálfráð gerða sinna hvað skráningu pundsins snertir, sem ekki er annað vitað, verður hún að taka þetta mál til alvarlegrar athugunar. Það er alveg óþarfi að hleypa ríkinu í óþarfa skuldir sakir þessara hluta, jafnframt því að láta skattal. ekki gilda eins og þau voru, áður en útgerðarfélögin fengu skattfrelsi.