30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrmrh., út af þeim mótmælum, sem gerð voru hér á Alþ. út af handtöku eins alþm. og fleiri manna, hvernig á því stendur, þar sem þingið samþ. ekki þessi mótmæli fyrr en kl. 5 og Alþ. hafði leynilegar umr. um málið og hér í þinginu er þáltill. um mótmælin ekki birt að neinu leyti fyrr en hún er samþ., að samt skuli það koma út í dagbl. Vísi fyrir kl. 5 sama dag, að Alþ. hefði samþ. mótmælin. Það virðist svo sem sama launungin, sem átti að gilda hér á hæstv. Alþ., hafi ekki gilt fyrir alla, a. m. k. í þessu tilfelli, hvort sem vitneskja hefur komið frá þeim, sem staðið hafa fyrir till., eða beint frá ríkisstj. til blaðsins. Einkennilegt virðist mér það, að það, skuli í þessu efni hafa verið látnar gilda alveg sérstakar reglur fyrir þetta blað. Og ég vil um leið gera þá fyrirspurn, hvort ríkisstj. muni ekki vilja reyna að sjá um, að þetta eða því líkt komi ekki fyrir framvegis.

Út af því karpi, sem hér hefur átt sér stað um mótmæli gegn aðförum kafbáta og annarra herskipa við íslenzk skip, vil ég geta þess, að ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt bíða mætti að segja nákvæmlega frá því, hvernig mótmælum væri hagað gegn slíku og þvílíku af hálfu ríkisstj., þá virðist mér það hin mesta firra, að ekki skuli skýrt frá því af hálfu ríkisstjórnarinnar, að mótmæli séu gerð gegn því, að myrtir séu menn tugum saman á íslenzkum fiskiskipum, algerlega óvopnuðum. Og þessir menn eru myrtir af áhöfn skipa þeirrar þjóðar, sem ríkisstjórnin hér stendur ekki í stríði við. Finnst mér mesta firra, að ríkisstjórnin skuli þurfa að bíða á annan mánuð með að birta mótmæli gegn slíku atferli.