08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti! Þegar þetta mál kom til 1. umr., mæltist ég til, að það færi til nefndar. Nú hefur allshn. afgr. það á svo stuttum fresti sem henni var unnt og ljær því einhuga fylgi, með þeim brtt., sem sjá má á þskj. 146. Ráðstafanir frv. eru sjálfsagðar, eins og nú horfir, en þær ná aðeins of skammt að dómi n., og því vill hún gera breyt., sem nú skal lýst.

Frv. gerir ráð fyrir, að tekin séu á leigu öll skólahús, fundahús og þinghús í sveitum til dvalar fyrir börn, ef þörf gerist. N. vill bæta við: „— og annað nothæft húsnæði“, og hún vill ekki binda heimildina við sveitir einar, heldur einnig kauptún, þar sem líkur benda til, að hætta af loftárásum sé lítil eða engin, en allgóð skilyrði til að búa vel að börnunum. Ég gæti til dæmis nefnt Vík í Mýrdal og ýmis kauptún á Vesturlandi — og auðvitað víðar. Til þessara staða eru flutningar mjög auðveldir. Annað atriði, sem nefndin taldi nauðsyn á, er að heimila ríkisstj. að taka farartæki leigunámi, ef ekki næst samkomulag við eigendur þeirra. Svo brátt

gæti slíka flutninga borið að, að þess reyndist full þörf.

Í frv. er einungis rætt um húsnæði handa börnum. En jafnmikil ástæða er til að það nái einnig til mæðra þeirra, sérstaklega ef um ung börn er að ræða. Hefur n. bætt því inn í ákvæði 1. gr.

Af brtt. n. mun sú vera veigamest, að leigunámsheimildin nái til farartækja. En ég býst við, að flestir verði því samþykkir, þegar þeir íhuga, hvern fjölda mæðra og barna kann að þurfa að flytja úr Reykjavík og Hafnarfirði. N. álítur, að það sé full ástæða til þess, að ríkisstj. fái að taka bíla til flutnings á mæðrum og börnum og að heimild til þess vanti í frv. Ég hugsa, að minni líkur séu til þess, að farkostur á sjó verði ekki nægilegur, en vitanlega þyrfti annars um það að grípa til sömu ráðstafana og um flutning á landi. Til þess að koma þessu inn í frv., er lögð til breyt. á 1. gr.

Á 2. gr. er sú breyt. lögð til, að leigunám geti eins náð til þeirra, sem kunna að hafa leigt þau hús eða tæki, sem um er að ræða, og eigendanna. Það getur verið hætta á, að jafnvel þinghús eða skólahús hafi þegar verið leigð, þegar hið opinbera vill fara að gera sínar ráðstafanir, og taldi n. heppilegt, að skýrt væri tekið fram í þessu frv., hvað gera mætti, þegar svo stæði á.

Loks er sú brtt. gerð, að leigunám geti og náð til húsa í einkaeign, sem eru lítið eða ekki notuð. Slík hús kunna að vera til í smærri kauptúnum, og gæti verið nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að mega taka þau til afnota fyrir mæður og börn.

3. brtt. á þskj. 146 er við fyrirsögn frv. Er hún gerð með það fyrir augum að forðast óþarfa upptalningu í heiti frv.

N. er sammála um að leggja til, að þessar breyt. verði gerðar á frv. og væntir, að hv. d. geti og fallizt á þær.