08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þetta frv. er um ráðstöfun á húsrúmi fyrir konur og börn alls staðar af landinu, þar sem~ hætta gæti verið á hernaðaraðgerðum. Svo framarlega sem sérstakir samningar liggja fyrir á milli Ísafjarðarkaupstaðar og Reykjanesskóla, kemur ekki til þess, að leigunámsheimildin verði notuð þar. Um Laugarvatnsskóla höfum við rætt í ríkisstj., en það er augljóst, að ekki er hægt að taka eina staðinn sunnanlands, þar sem Reykvíkingar leita sér sumardvalar, enda er það svo, að tvöfalt fleiri pantanir hafa verið gerðar þar um húsrúm en venjulega. Reykholtsskóla er þegar ráðstafað. Um Blönduósskóla er það að segja, að þar er talsverður her, og af þeirri ástæðu kæmi hann ekki til greina, enda er hann eini gististaðurinn á leiðinni norður. Skólarnir á Hólum og Hvanneyri eru fullskipaðir, einnig að sumrinu.

Um skólana á Laugum, Laugalandi og Hallormsstað hefur ekki verið rætt í ríkisstj., og get ég því ekki gefið bindandi yfirlýsingu á þá leið, sem hv. þm. S.-Þ. óskaði efir, við þessa umr.

Ég get minnzt á það, að ríkisstj. hefur verið skýrt frá því, að brezki herinn hafi skoðað Laugalandsskólann og hafi haft hug á því nú síðustu vikurnar að taka hann til afnota, en herstjórninni var skrifað og bent á, að það væri óheppilegt. En á Laugum er húsrúm mjög lítið. Þessa síðastnefndu þrjá staði get ég engar yfirlýsingar gefið um, nema ræða fyrst við starfsbræður mína í ríkisstj. En öll þessi skólahús eru lítil, og mundi ekki muna svo mjög um þau í þessu sambandi.