08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Páll Hermannsson:

Ég hygg það rétt, sem hv. þm. S.-Þ. mælti um húsmæðraskólana. Ég ætla, að ég þekki svo vel til starfsemi þeirra í sveitum landsins, að þeir séu með öðru móti en aðrir skólar. — Þar er ríkjandi sérstök menning, bæði í húsaskipun og híbýlahætti, og ég álít, að konum einum sé fært að láta í té þá umsjá, er þeir þurfa með. Sá íslenzki svipur, er einkennir þá, gefur þeim sitt sérstaka gildi. Þess vegna er mjög eðlilegt, að forráðamönnum þeirra sé sárt um, að skólarnir verði fyrir skemmdum. Hins vegar er vitað, að ef þörf krefur, ber að taka þessa skóla fyrir börn. En mér finnst ekki nema eðlilegt, að þeim verði hlíft í lengstu lög við þeim skemmdum, sem hlýtur að leiða af notkun skólanna í þessum tilgangi. Ég hygg, að þetta mál þurfi nákvæmrar yfirvegunar, áður en hafizt er handa í því.

Það hefur heyrzt, að bændur hér í nágrenni Reykjavíkur hafi látið þau orð falla, að nú þurfi þeir að skera niður kýrnar, jafnvel strax í vor, af því að ekkert fólk fáist út í sveitirnar til að afla heyja eða sinna skepnum. Ef til vill er þetta nokkuð ýkt, en menn vita, að fólksfæðin í sveitum landsins er gífurleg, og mun enn ágerast, sem stafar af hinu háa kaupi, sem greitt er í kaupstöðum landsins. Þetta eru mjög ískyggilegar horfur. — Ég þykist vera svo kunnugur í sveitunum, að ég þori að segja, að mér er það hulin ráðgáta, hvernig búnaður þar getur átt samleið með því, að þær fæði um leið hóp barna, — þegar enginn fæst þangað til að sinna nauðsynlegum störfum. Þetta kemur í raun og veru húsaspurningunni ekki beint við, en er henni þó ekki óskylt. Alþingi þarf að athuga gaumgæfilega, hvort nokkur verkdrýgindi muni vera í því að flytja börn út í sveitir landsins. Ég álit það ekki, því ég býst við, að þau verði flest á því reki, að þau muni fremur tefja fyrir en vinna.

Ef sveitafólkið á að fóstra börn, um leið og það á að sinna sínum eigin störfum, sem það á fullt í fangi með og jafnvel alls ekki getur, þá hljóta menn að sjá, hvert stefnir.