08.04.1941
Efri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (413)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Magnús Gíslason:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá er ekki rætt um í n. að undanskilja viss hús frá því að vera tekin til notkunar fyrir börn. Þvert á móti álít ég, að ef flytja á fjölda barna burt úr þeim kaupstöðum, sem eru í hættu vegna loftárása, þá muni verða skortur á húsakynnum, og því beri að taka öll hús undantekningarlaust til þessara nota. Mér kom það mjög undarlega fyrir sjónir, þegar hæstv: forsrh. talaði um, að börnin yrðu aðeins flutt burtu, ef brýna nauðsyn bæri til þess. — Hernaðaraðgerðir Breta hér í Reykjavík og víðar eru svo víðtækar, að við megum vera við öllu búnir, og allt mælir með því, að brýn nauðsyn sé á brottflutningi. Loftárása getur maður vænzt á hverri stundu.

Hæstv. forsrh. var eitthvað að tala um að hafa l. þessi í bakhöndinni, — með öðrum orðum, þá skildist mér, að ekki ætti að grípa til undirbúnings eða framkvæmda, fyrr en búið væri að kveikja í bænum og brenna húsin ofan af fólki. Ég lít hins vegar svo á, að tilgangurinn með þessari löggjöf sé einmitt sá að fyrirbyggja þá hættu, sem yfir vofir.

Þá mun ég víkja nokkrum orðum að því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði. Hann talaði um; að með húsmæðraskólana stæði sérstaklega á, og ætti því ekki að taka þá fyrir börn. Ég veit satt að segja ekki, í hvers umboði þessi þm. talar. Áreiðanlega ekki fyrir hönd íslenzku kvenþjóðarinnar, þegar hann vill ekki taka húsmæðraskólana í þessu skyni. Ég mótmæli því fyrir hönd íslenzkra kvenna, að þeim sé eignuð þessi skoðun í málinu.

Hv. 2. þm. N.-NI. áleit, að hlífa bæri húsmæðraskólanum í lengstu lög vegna þeirrar íslenzku menningar og svips, er þeir bæru á sér, og forráðamenn — þeirra mundi taka sárt, ef þeir yrðu fyrir skemmdum, sem hv. þm. taldi óhjákvæmilegt.

Ég get ekki séð neinn sérstakan íslenzkan svíp á þeim, nema ef vera skyldi það, að sumir eru með nokkuð mörgum burstum.

Enn fremur tel ég litlar líkur á, að þeir mundu skemmast, en ef svo færi, þá yrði ríkisstj. að sjálfsögðu skyld til að láta gera við skólana á kostnað hins opinbera.

Mér þykir leitt, að þessir þm. skuli hafa látið slík. orð falla, sem sýna, að hér hefur hugur ekki fylgt máli. Hvað mig snertir, tel ég mig ekki geta misskilið tilgang þessarar lagasetningar.