15.04.1941
Neðri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Einar Olgeirsson:

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. 2. þm. Árn. vill ekki gera þau orð, sem form. Framsfl. mælti í Ed., að sínum og hann vill leggja þar önnur sjónarmið til grundvallar fyrir þá athugasemd, sem hann kom fram með við umr. áðan. Ég býst líka við, að Framsfl. hafi líka fundið það, ekki aðeins vegna þess, sem Þjóðviljinn sagði, heldur einnig vegna þess. sem öll blöðin sögðu um það, sem fram kom hjá hv. þm. S.-Þ., að það væri of langt gengið, þegar bæði þingi og þjóð væri boðið upp á annað eins og þá var talað af form. Framsfl., og er það gott að sjá, að meira að segja hans tryggustu flokksmenn átta sig á þessu.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. var að minnast á, hvað dómsmrh. mundi gera í sambandi við Þjóðviljann, þá held ég, að annað mál liggi nær, og það er, hvað Alþingi og stjórnmálafl. sjálfir hugsa sér að gera í sambandi við þau fyrirbrigði, sem nú eru að verða svo algeng með þennan þm. og hans framkomu. Ég held, að það sé meira athugunarefni fyrir stj. og þingið sjálft heldur en það, sem ,Þjóðviljinn kann að segja. Í raun og veru held ég, að hann hafi aldrei sagt það sem skyldi, en það fer ekki að verða vansalaust að láta halda áfram eins og hefur verið hingað til með þennan þm. Ég vil aðeins nefna sem dæmi, það sem hann sjálfur skrifar sem formaður utanríkismálan., sem væri virkilega þess vert, að því væri gaumur gefinn af hálfu Alþingis, — hvort á að láta þá menn, sem gegna jafnábyrgðarmiklum stöðum, tala jafnábyrgðarlaust og þar er gert. Ég held, að það væri nær fyrir Alþingi og stjfl. að taka þetta til athugunar heldur en að herða meira að prentfrelsinu en þegar hefur verið gert.