18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Það var svolítil aths., sem ég vildi gera.

Það er sjálfsagt að hafa þá heimild, sem þörf er á um þetta mál. En ég sakna þess, að það eru engin ákvæði í frv. um það, hverjir eigi að fara með framkvæmd þessara mála. Eiga það að vera fulltrúar eingöngu frá bæjunum og þá þeirra, sem flytja eiga í sveit, en engir fyrir þá, sem eiga að láta húsnæðið af hendi og eiga mest í húfi um það, hvernig þetta verður framkvæmt? Eftir því sem ég veit bezt, hefur n., sem á að framkvæma þetta, verið eingöngu skipuð með tilliti til þeirra, sem eiga að flytja í sveitina, en enga þá þekkingu hafa á högum þeirra, sem í sveitunum búa, og þörfum þeirra, að þeir geti metið það, hvað fólk má missa af húsnæði sínu. Og þó að ég vilji á allan hátt flýta fyrir frv., þá mælist ég til þess, að frestur verði gefinn til þess að tala um það við stj., hvernig framkvæmdan. sú verði skipuð, sem á að hafa þessi mál með höndum. Það ríður ekki lítið á, að þetta sé gert óhlutdrægt á báðar hliðar, gagnvart þeim, sem eiga að láta þétta húsnæði af hendi, og einnig gagnvart þeim, sem eiga að fá það. Það þarf að velja til þessa menn, sem þekkja nóg til málanna á báðar hliðar og kunna að meta, hvað réttast er og hvaða þarfir það eru, sem ekki má traðka, — þegar verið er að taka húsnæði leigunámi. Þetta vildi ég, að hæstv. forseti tæki til greina, og sett væru ákvæði inn í þetta frv. um það, hvernig framkvæmdin skyldi verða í þessu máli og í hvers höndum. Hér svífur það í lausu lofti, og er það alveg óviðunandi, hvernig fyrir þessum hagsmunum er séð frá báðum hliðum, því að þetta er mjög viðkvæmt mál á báðar hliðar. Það er ekki lítið varið í, að þetta sé framkvæmt af fullum skilningi af þeirri framkvæmdanefnd, sem hefur þetta með höndum, og að það sé gert algerlega hlutdrægnislaust. Ég vildi mælast til þess, að þetta mál — yrði látið bíða til næsta dags og þetta atriði yrði athugað betur af n.

Í fyrstu gr. frv. virðist mér einkennilegt orðatiltæki: að ríkisstj. sé heimilt að taka á leigu öll skólahús, fundahús, þinghús og annað nothæft húsnæði í sveitum til þess, ef nauðsyn krefur, að gera þessi hús að dvalarstöðum fyrir börn og mæður úr kaupstöðum og kauptúnum, — alveg án tillits til þess, hvort húsnæðið hefur verið notað áður .eða ekki. Ef menn veldust til að framkvæma þetta, sem gengju freklega fram í framkvæmdum sínum, þá er samt sem áður ekki annað hægt að sjá eftir orðalagi frv. en að samkvæmt því væri hægt fyrir þá að bera út fólk úr sínum húsum til þess að þar gætu komizt inn börn og mæður úr kaupstöðum og kauptúnum. Það er óþarft að hafa svona orðalag í l., þó að ég geri alls ekki ráð fyrir, að þetta verði framkvæmt svona eins og ég til tók. Það er vitanlega ekki meiningin með löggjöfinni að framkvæma þetta svona, en það er hægt að gera það eftir orðalagi frv. án tillits til þess, hvort húsnæðið er notað eða ekki til annars. Þetta þyrfti n. að lagfæra og færa í þann búning, se,m því er ætlað, en ekki hafa ákvæðið svona almennt.