18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

1) Hvernig sem n. verður skipuð, hefur hún sjálfsagt engan leigunámsrétt. Hún leggur aðeins till. sínar fyrir ríkisstj., og má gera ráð fyrir því, að stj. taki fullt tillit til þessara aðila. Annars má benda á, að samkvæmt 2. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að reynt sé að ná samkomulagi við þá, sem húsnæðið eiga að láta af hendi, en ríkisstj. er gefin leigunámsheimild, ef samkomulag næst ekki. Það er misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni, að þetta hafi ekki verið athugað og sé því ástæða til að fresta málinu. N. hefur athugað þetta vel. Og það er auðvitað, að ríkisstj. ræður, hvort hún vill nota þessa leigunámsheimild eða ekki, eftir að hafa fengið till. frá n.

Hv. síðasti ræðumaður taldi það óheppilegt orðalag í 1. gr. frv., þar sem talað er um „annað nothæft húsnæði í sveitum eða kauptúnum“. Spurði hann, hvort sú væri tilætlunin að reka þá út, .sem þar ættu heima. Þetta ber auðvitað ekki svo að skilja. Annað mál er það, hvort ekki yrði talin ástæða til að taka leigunámi eitthvað af húsnæði, sem talið væri óþarflega stórt fyrir íbúana, og yrði í mati á þessu að

fara eftir því, hve þörfin væri aðkallandi. En það getur auðvitað ekki verið tilætlunin að taka húsnæði af nokkrum manni, nema vegna nauðsynjar á því að koma fólki af hættusvæði.

Um þau hundruð sumarbústaða, sem eru á Þingvöllum og annars staðar hér í grennd, er það að segja, að þeir eru flestir svo litlir, að þeir verða að teljast fullnotaðir af eigendunum. En þetta fer, sem sagt, eftir aðkallandi nauðsyn og því, hve hættan telst mikil. Gæti farið svo, að fylla yrði ýmis hús af fólki eftir að loftárás hefði verið gerð, mörg hús hrunin í bænum o. s. frv., og væri ekkert við því að segja.

1) Upphaf ræðunnar vantar í hndr.