18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Eftir þær upplýsingar, sem fram hafa komið, get ég lýst yfir því, að ég er ekki hræddur um, að hæstv. ríkisstj. muni beita þessari heimild á óeðlilegan hátt, en frv. er svo klaufalega orðað, að ekki er vansalaust af Alþ. samþ. það óbreytt. Þó að þetta skipti et til vill ekki miklu máli um framkvæmdina, finnst mér sjálfsagt að breyta orðalaginu. í frv. stendur, að heimilt skuli vera að taka á leigu öll skólahús, fundahús, þinghús og annað nothæft húsnæði í sveitum eða kauptúnum til þess, ef þörf gerist, að gera þessi hús að dvalarstöðum fyrir börn og mæður þeirra úr kaup

stöðum og kauptúnum. Nú eru til börn og mæður í sveitum líka, en það er eins og börn og mæður úr kaupstöðum og kauptúnum eigi að hafa forgangsrétt. Ég segi ekki, að þetta vaki fyrir hv. flm., en það kemur þannig út vegna þess, hve klaufalega gr. er orðuð.

Að því er snertir samkomur í sveitum er það að segja, að ef um skemmtisamkomur væri að ræða, yrðu þær að sjálfsögðu að þoka, en ég vænti þess, að hægt sé að haga framkvæmd þessara hluta svo, að unnt verði að halda manntalsþing, hreppaskil o. s. frv. í sveitunum.