18.04.1941
Neðri deild: 40. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, vil ég geta þess, að orðabreytingin : ,;ef nauðsyn krefur“ í staðinn fyrir, „ef þörf gerist“, þá er sú breyt. ekki hugsuð nema sem orðabreyt.

Um brtt. hv. þm. vil ég aðeins segja það, að ég sé ekki ástæðu til að samþ. hana af þeirri einföldu ástæðu að brtt. allshn. við frvgr. er gerð til þess að ná þessu, sem í brtt. hv. 4. þm. Reykv. stendur. Eins og brtt. á þskj. 215 ber með sér, þá er þetta alveg óbundið að öllu öðru leyti en því, að fólk flytji aðeins frá þeim stöðum, þar sem talið er, að hætta sé á loftárásum, þannig að það þarf ekki að telja upp kaupstaði, kauptún og sveitir, heldur aðeins, að þarna á að fá örugga dvalarstaði fyrir börn og mæður þeirra. Og það er ætlunin að flytja þessa einstaklinga frá þeim svæðum, sem telja má hættusvæði, og á öruggari staði. Og það er það sama, sem vakir fyrir hv. 4. þm. Reykv. með sinni brtt. og fyrir allshn. með sinni brtt., að þetta sé óbundið. Ég sé ekki ástæðu til þess að samþ. brtt., því að með ákvæðum hennar er engu meiru náð heldur en með brtt. n.

Hv. 1. þm. Rang. hefur tekið aftur sína brtt. Það er náttúrlega hægt að sýna rök fyrir því, að hann tók hana aftur. En hann vildi láta skína í það, að hann hefði tekið hana aftur, af því að allshn. hefði bætt ráð sitt og orðað frvgr. miklu betur. En gallinn á því, að hann gæti notað þetta til þess að taka aftur brtt. sína, er sá, að það er ekkert það í brtt. n., sem fer inn á till. hans. Hún er sem sé um allt annað efni. Og ef hv. þm. meinti það með sinni brtt., að hér ætti að sjá um öryggi sveitafólksins, þá hefði hann átt að breyta brtt. sinni í samræmi við það. En hans brtt. var óþörf, og brtt. n. þörf.