21.04.1941
Efri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

50. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Frv. það, sem hér liggur fyrir, er ekki þannig vaxið, að út af efni þess sé ástæða til að hefja miklar umr. En mig langar til, af því að hér er um gjaldeyrisverzlun að ræða, að gera nokkrar fyrirspurnir til þess ráðh., sem fer með bankamálin.

Það er í þessu frv. ákveðið, að allur erlendur gjaldeyrir, sem menn eiga eða eignast, skuli renna til banka þeirra, er hafa einkarétt til að verzla með hann. Svo hefur fjhn., eftir tilmælum hæstv. viðskmrh., komið hér með breytingu um það, að fyrir utan það, að bönkunum er falið að verzla með allan erlendan gjaldeyri, þá megi póst- og símamálastjórn útfæra þá verzlun, sem henni er nauðsynleg.

Hér er nú hreyft við máli, sem nú á þessum tímum er orðið nokkuð víðáttumikið, liggur mér við að segja, þar sem er gjaldeyrisverzlunin, og margt af því, sem fram fer á því sviði, er þess eðlis, að mér finnst, að hið háa Alþingi fái heldur litlar skýringar frá hæstv. ríkisstj. um gang þeirra mála.

Eins og kunnugt er, voru fyrir nokkru gerðar ráðstafanir, að ég held með reglum til að stöðva að nokkru leyti umreikning á þeim sterlingspundum, sem menn fengu fyrir útfluttan ísfisk. Nú fram að þeim tímum, veit ég ekki betur en að pund hafi verið umreiknuð tafarlaust fyrir þá vöru eins og fyrir aðrar vörur. Ég þykist vita, að það, sem hefur vakað fyrir stjórn seðlabankans og hæstv. viðskmrh. með þessari heimild, hafi verið að koma í veg fyrir það, að þjóðbankinn eignaðist of háar pundafúlgur liggjandi í Bretlandi. Í sambandi við þá hættu, sem verður að ganga út frá, að talin hafi verið yfirvofandi, verður manni ósjálfrátt að minnast þess, hvort ekki hefði, ef það ráð hefði verið tekið í tíma, mátt draga úr þessari hættu með því að leyfa frekari innflutning til landsins á ýmsum nauðsynjavörum frá Bretlandi á meðan þær voru vel fáanlegar og seldust með viðunandi verði, og enn fremur meðan skipakostur var fyrir hendi til að flytja slíkar vörur. Það er gefið mál, að þegar hér fóru að safnast saman stórar innieignir og fúlgur í brezkum bönkum, t. d. þegar komið var fram á árið 1940, og stríðið var í þeim gangi, sem þá var og enn er, að þá hefur hlotið að koma til greina hjá hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. viðskmrh., hvað hægt væri að gera til þess að draga úr því, að þessar pundainnieignir yrðu lítils virði.

Þess vegna vil ég í fyrsta lagi spyrja hæstv. viðskmrh., hvort honum hafi verið það ljóst vorið 1940, að nokkuð miklar innieignir söfnuðust fyrir í enskum bönkum, og hvort hann telji sig hafa gert tiltækilegar ráðstafanir til þess að sjá fyrir því, að landið fengi sem mest af nauðsynjavörum fyrir þessar innieignir.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Hverju námu innieignir Landsbankans í pundum í útlöndum, þegar tekið var það ráð að setja þær hömlur á yfirfærslu eða umreikning punda fyrir ísfisk, sem settar voru með stofnun gjaldeyriskaupanefndar? Það væri fróðlegt að vita, hvað hár sá seðlahlaði var orðinn á þessu tímabili.

Það getur vel verið, að þetta greinist í tvennt, eigi sem sagt að gilda fyrir báða bankana, og mætti þá segja: Hvað var innieign landsins mikil, þegar svo var komið eins og hér hefur verið sagt? En það, að ég tengi sérstaklega nafn Landsbankans við þetta mál, er það, að mér og raunar fleirum hlýtur að vera það í fersku minni, hvað einmitt þessi banki og ráðh., sem hefur yfirstjórn hans með höndum, var fyrir stríð varkár í þeim efnum að leysa ekki inn erlendan gjaldeyri einmitt fyrir togarafisk, og raunar einnig fyrir aðrar íslenzkar afurðir, svo varkár, að það kom hér til þeirra kasta fyrir fáum árum síðan að reyna að hafa áhrif á það, að Landsbankinn afreiknaði sölu á ísfiski til íslenzkra botnvörpuskipaeigenda nokkurn veginn jafnóðum. En ekkert, ekki einu sinni það, sem fram kom hér á Alþingi, megnaði að fá Landsbankann til þess.

Þá var varkárnin svo mikil í þessu efni, að Landsbankinn fékkst ekki með nokkru móti til að reikna ein einustu 100 RM um í íslenzka peninga, af því fé, sem safnazt hafði fyrir á hans reikning í þýzkum bönkum fyrir íslenzkar afurðir, öðruvísi en um leið og hann seldi þessi RM aftur til ísl. innflytjenda vara. Hann hélt mjög fast við það á þessum tímum að skapa sér ekki eyris ábyrgð af þessum ástæðum. Nú var hér aldrei að ræða um verulega stórkostlegar upphæðir. Þessar innieignir kunna að hafa numið stundum, þegar hæst var, kannske 1 eða 2 millj. kr. En það var sem sagt alveg föst regla bankans að afreikna ekki eyri af þessum innieignum fyrr en um leið og hann seldi þær.

Í sambandi við þetta er ef til vill hægt að fá að heyra, hvað hafði nú safnazt á hendur

Landsbankans af pundum, þegar hann og hæstv. ríkisstj. tók fyrir að halda að sér höndum og hætta að umreikna fyrir part af útflutningnum, öðruvísi en eftir þeim reglum, sem um þetta gilda og hæstv. ráðh. hefur sett?

Það er kunnugt, að þessar reglur eru til, en þó held ég, að þær séu engan veginn tæmandi. Eftir því, sem ég bezt veit og auglýst hefur verið, virðist þetta einungis eiga við útflutning ísfiskjar, en eins og kunnugt er, flytur landið út margt fleira, en ég hef ekki séð auglýstar neinar reglur um aðrar vörur, sem fluttar eru til Bretlands, en um ísfisk.

Og þá er önnur spurning mín til hæstv. viðskmrh. sú, hvort hann vilji skýra það fyrir hv. d., — eftir hvaða reglum starfar gjaldeyriskaupanefnd, að öðru leyti en því, sem auglýst er sérstaklega um ísfisk?

Þriðja spurningin, sem ég vildi leyfa mér að bera fram við hæstv. viðskmrh., er eiginlega náskyld þessu efni og miðar að því að spyrja, hvort hömlur séu settar á yfirfærslu punda fyrir aðrar útflutningsvörur landsmanna heldur en ísfisk. Ég skal strax taka það fram, af hverju ég spyr. Mér er kunnugt um, að ég held, að formaður gjaldeyriskaupanefndar hefur á einu sviði framleiðslunnar hér í landi innt mjög ýtarlega eftir lítilfjörlegum kostnaðarpósti í sambandi við þessa framleiðslu, með það fyrir augum, að því er mér er tjáð, að athuga, hvort það væri þörf á því að yfirfæra allt andvirði þessarar vöru, ef hún yrði flutt út.

Þá vildi ég minnast hér á atriði, sem ég verð að játa, að ég á erfitt með að skilja, hvernig getur orðið til hagsbóta fyrir landsmenn.

Mér er kunnugt um, og það er reyndar það, sem allir vita, að ýmsir aðilar hér, sem hafa flutt út vörur og þá sérstaklega ísfisk, eiga svo kölluð bundin pund. Það er sá hluti varanna, sem bankinn hefur ekki viljað umreikna samkv. ákvörðunum gjaldeyriskaupanefndar, og standa því sem bundin pund fyrir reikning þess íslenzka aðila, sem flutt hefur vörurnar út. Nú veit ég enn fremur um dæmi þess, að menn, sem hafa átt þessar bundnu innieignir, hafa átt kost á því að nota þær til kaupa á nauðsynjavörum til landsins og jafnvel þeim vörum, sem kannske, þegar allt kemur til alls, hefði verið happadrýgst að hafa aflað, en það eru skip.

Ég veit um tilfelli, þar sem mér er skýrt frá, að hin hv. gjaldeyriskaupanefnd hefur neitað íslenzkum eiganda að pundum að nota þessi innifrosnu pund til þess að kaupa fyrir þau síldartunnur og salt. Ég veit einnig um annað tilfelli, þar sem þessi sama nefnd neitaði íslenzkum aðila, er misst hafði skip sitt, en átti vátryggingarupphæðina í pundum og átti kost á því að fá annað skip þegar í stað, en vátryggingarupphæðin nægði ekki fyrir því skipi, en hins vegar átti þessi aðili næg frosin pund, en honum var neitað um að fá að nota þessi pund, Það sem á vantaði, til þess að hann gæti eignazt þetta skip.

Í sambandi við þetta vildi ég gjarnan fá að skilja þá þjóðhagslegu nauðsyn, sem þarna liggur að baki, og mér væri sýndur hagurinn af því, að mönnum, sem eiga bundin pund á kontó, þeim sé meinað að verja þeim fyrir jafnmikil nauðsynjainnkaup og að eignast skip.

Ég fullyrði ekkert um það fyrirfram, að hér kunni ekki að vera, að einhverjar af þeim ástæðum, sem fyrir þessu eru, séu þannig, að ég geti vel fallizt á, að hér sé rétt farið að. Það getur vel verið. En eins og þetta mál liggur fyrir, jafnlítið og það hefur verið skýrt fyrir hv. þm., þá verð ég að segja, eins og ég stend hér nú, að mér er ómögulegt að skilja, og ég hygg, að svo muni vera fyrir fleiri hv. þm., á hvaða hátt það getur orðið skaði að því að nota þessi bundnu pund til innkaupa á þennan hátt, eða á hvaða hátt það getur orðið að gagni fyrir landið, að slíkt sé bannað.

Loks vil ég spyrja hæstv. viðskmrh., af því að ég hef hér rætt um þau pund, sem bönkunum er ætlað að kaupa og aðilum er gert skylt að selja bönkunum fyrir útfluttar íslenzkar afurðir, þá vildi ég í næstu spurningu minni spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort bankarnir kaupi pund af öðrum aðilum heldur en íslenzkum útflytjendum og hvort það væri án takmörkunar og þá, hvað mikið væri komið af því?

Loksins finnst mér satt að segja, að það væri ekki úr vegi að heyra frá því sagt af þeim ráðh., sem hefur með þessi mál að gera, hvernig því völundarhúsi er nú orðið varið, sem hefur með höndum úthlutun á erlendum gjaldeyri hér á landi.

Það virðist nú vera, og var jafnvel fyrir stríð, nokkuð langur og erfiður vegur til þess að fá innflutningsleyfi fyrir ýmsum vörum. En ég held, hvað gjaldeyrisliðinn á þessum sömu vörum snertir, þá hafi þessi gangur þyngzt upp á síðkastið, og séð frá sjónarmiði þeirra manna, sem mest komast í kynni við — viðskiptagang þeirra mála, þá er lítt skiljanlegur sá langi tími, sem í það fer að fá skorið úr því, hvort gjaldeyrisleyfi fæst fyrir þetta eða hitt, og að synjað er um leyfi fyrir nauðsynlega hluti. Þá fer mér að verða það ráðgáta og vildi því spyrja hæstv. viðskmrh.: Í hvers höndum er að síðustu úrslitavaldið um það, hvort menn fá erlendan gjaldeyri fyrir nauðsynjavöru til landsins?

Ég skal nú fyrirfram biðja hæstv. ráðh. afsökunar á því, ef ég þreyti hann með of mörgum spurningum viðvíkjandi þessu máli. En satt að segja, þegar slíkt mál eins og gjaldeyrismálin er á dagskrá, er svo margt, sem æskilegt er að fá upplýst í þeim málum, og farinn er að verða svo undarlegur gangur í þessum málum, að ég vil biðja hæstv. ráðh. að virða mér það til vorkunnar, þó að þessar spurningar séu nú hér fram settar, og vonast til þess, að hann reyni að gera þau atriði, sem ég spyr um, skiljanleg bæði fyrir mér og ef vera kynni einhverjum öðrum, sem ekki væru vel inni í þessum sökum.