21.04.1941
Efri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

50. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Páll Zóphóníasson:

Það var aðeins eitt atriði í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, sem mig langaði að fá nánari upplýsingar um.

Mér skildist á ræðu hæstv. viðskmrh., að það burðarmagn, sem okkar skip hafa, væri takmarkað. Þess vegna hefði verið reynt að hlutast til um, að með skipunum væru fluttar helztu nauðsynjar okkar.

Nú er siglingateppa og við vitum, að töluvert misjafnt er til af ýmsum vörum í landinu. Það mun meðal annars vera til mjög mikið af sumum lítt þörfum vörutegundum, en lítið af ýmsum nauðsynjavörum. Nú langar mig að fá upplýst, hvernig á því stendur, að innflytjendafélag heildsalanna, sem hefur haft frjálsar hendur um innflutning nauðsynja, skuli hvað eftir annað, bæði á þessu ári og síðasta ári, hafa orðið uppiskroppa með nauðsynjavörur og orðið að lifa á lánum frá S. Í. S. Og hvernig stendur á því, að skip, sem nýkomin eru til landsins fullhlaðin vörum, hafa ekki verið látin taka fullfermi af matvöru, heldur eru látin flytja alls konar annan varning, sem ekki er eins nauðsynlegur og sem virzt hefði, að heildsalasambandið hefði síður átt að flytja inn. Ég vildi mjög ákveðið beina því til þeirra, sem hafa um það ráð, hvað flutt er með skipunum, að ekki verði látnar sitja í fyrirrúmi vörur frá Pétri og Páli, sem lítil nauðsyn er fyrir, en látið vanta nauðsynjar, sem fólk þarf til þess að draga fram lífið. Og ef það heldur áfram, að heildsalarnir fáist ekki til að liggja með birgðir, þá verður að athuga, hvort ekki er rétt að setja upp landsverzlun.