24.02.1941
Efri deild: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

15. mál, hegningarlög

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er staðfesting á bráðabirgðal., sem gefin hafa verið út. Það eru ein af þeim 1., sem ég tel, að betur hefði farið á, að staðið hefði við : „Gert í London“, — en ekki í Reykjavík.

Hæstv. forsrh. hefur tekið það fram, að 1. þessi séu sett vegna þess, að erlent herlið sé hér í landinu. Og það mun nú verða lítið svo á, að ekki tjái að deila við dómarann, þessi bráðabirgðal. séu lögð fyrir Alþ. meira fyrir forms sakir, en ég ætla mér samt sem áður að greiða atkv. á móti þeim. Það er ekki heldur hægt með neinu móti að skilja, hvaða nauðsyn bar til þess að fara að setja þessi l. fyrr en Alþ. kom saman. Ef svo brýn nauðsyn var á slíkri lagasmíð, að ekki mátti bíða eftir að þing kæmi saman, þá er mér með öllu óskiljanlegt, að l. þyrftu að koma svona aðeins rétt áður en þing kom saman. Hæstv. forsrh. viðurkenndi það í sinni framsöguræðu, og á því verður heldur ekki villzt, þegar á innihald l. er litið, að þetta eru ástandslög. Þau fjalla um það, hvernig við Íslendingar eigum að haga okkur í okkar eigin landi á meðan erlent setulið dvelur hér, brezkt eða annars ríkis, sem kynni að hertaka landið.

Ég átti í sumar einu sinni tal við brezkan liðsforingja, og ég spurði hann, hvers vegna

Bretar væru í stríði. Hann sagði, að þeir væru að berjast fyrir lýðræðinu í heiminum, baráttan væri milli fasismans og lýðræðisins. Ég spurði hann, í hverju þetta lýðræði væri fólgið. Hann sagði mér þá, að þótt maður segði í herbúðunum brezku, að konungurinn væri „bloody fool“, sem þýðir bölvaður asni, þá væri ekkert sagt við því. En ef þetta væri aftur á móti sagt í Þýzkalandi um Hitler, að hann væri „bloody fool“, yrði sá maður tafarlaust skotinn, með öðrum orðum, brezka heimsveldið og Bretar yfirleitt leggja fé og fjör í sölurnar fyrir þetta lýðræði, fyrir það að mega segja um æðsta mann þjóðarinnar, að hann sé „bloody fool“. En ef við nú Íslendingar segjum um einhvern brezkan liðsforingja hér á landi, að hann sé „bloody fool“, sem þeir eru nú náttúr lega margir, þá eigum við á hættu, eftir að þessi l. eru komin í gildi, að verða dæmdir í 6 ára fangelsi. Nú vil ég spyrja: Hvað er nú orðið um málstað Bretlands, sem fórnar millj. mannslífa og þrjú til fjögur hundruð millj. króna á dag, eftir því, sem þeir sjálfir segja, til þess að berjast fyrir þessu lýðræði, sem á að ganga svo langt, að manni sé leyft að fara móðgandi orðum um hvern, sem vera skal, án þess að vera refsað fyrir? En ef íslenzkur maður sparkar í óæðri endann á brezkum liðsforingja, eins og hefur komið fyrir, þá ætti hann eftir þessum bráðabirgðal. að vera dæmdur í 6 ára fangelsi, — og mér skilst, að ef íslenzk kona neitar brezkum foringja um blíðu sína, gæti hún verið dæmd í 6 ára fangelsi. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að halda sig við efni frv.). Ég er að tala um frv., því vitanlega telur brezkur liðsforingi það móðgun, ef íslenzk kona neitar honum um blíðu sína.

En það er aðalatriðið, að með svona ákvæðum, eins og eru hér í þessu frv., er opnuð leið til þess að afnema algerlega ritfrelsið í landinu. Því það er algerlega ómögulegt að skrifa svo í íslenzk blöð um málefni, sem kynnu að snerta að einhverju leyti viðskipti Breta og Íslendinga, að einhver Breti eða einhver brezkur liðsforingi geti ekki litið á það sem móðgun. Með öðrum orðum, ritfrelsið yrði þá ekki lengur til í þeim skilningi, að leyft yrði að skrifa frá íslenzku sjónarmiði, því að öll slík skrif er hægt að líta á sem móðgun. Og hvað er þá orðið um ritfrelsið í landinu?

Það kann að vera, að það sé óhjákvæmilegt að setja reglur um umgengni okkar við brezka setuliðið, en þá eigum við að setja um það sérstök l.,. eins og gert hefur verið í Danmörku, en ekki að leggjast svo lágt, að við förum að breyta okkar eigin hegningarl. Þessi l. bera vott um sams konar niðurlægingu íslenzkra stjórnarvalda eins og framkoma þeirra í flugmiðamálinu svokallaða. Við fleygjum okkur jafnvel flötum í skarnið til þess að þóknast innrásarhernum. Það er engin vansæmd í því að verða að lúta í lægra haldi fyrir ofbeldi, en þjóð, sem beygir sig í duftið af frjálsum vilja og leggur sjálf á sig fjötra, hún er að hætta því að gera tilraun til þess að vera frjáls, kasta á glæ sínum siðferðislega rétti til þess að vera frjáls. En sem betur fer, þá er þessi undirlægju

háttur, sem kemur fram í þessari lagasmíð og þá einkum í þeim ákærum, sem stjórnarvöldin hafa gert gagnvart íslenzkum mönnum vegna viðskipta þeirra við brezka setuliðið, ekki blettur á íslenzku þjóðinni í heild, heldur á valdhöfum hennar.