16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég fer ekki að svara ágizkunum hér. Það hafa komið fram getsakir, sem eru ekki óvenjulegar frá þessum hv. þm., og venjan hefur verið sú að svara því ekki. Hins vegar, ef rökstuddar skýrslur koma. til dómsmálaráðuneytisins, frá hverjum sem er, um að fangahúsið sé ekki eins og það á að vera, þá verða þær teknar til greina. Ég býst við að borgarar landsins hafi ekki undan því að kvarta, að ekki hafi verið rannsakaðar allar kærur, sem dómsmálaráðuneytinu hafa borizt. Væri fróðlegt að heyra um dæmi þess, að svo hafi ekki verið, því að slíkt er móti vilja mínum. Tel ég óviðunandi og óviðeigandi að kasta þessum aðfinnslum á fangavörð, og ef þær eru á sömu rökum reistar og gagnrýnin á fangavörð fyrir að hafa lokað fangana inni af því að þeir hafi ætlað að efna til samblásturs, þá eru þær ekki mikils virði, því að samkvæmt okkar hegningarl. eiga fangár. að taka út refsingu sína í fangaklefunum, með vissum undantekningum, eftir því, hvernig dómurinn er. En hér hefur verið gerð sú undantekning, að fangarnir hafa verið látnir vinna í flokkum, og er þetta undantekning frá því, sem tíðkast um refsingar nær alls staðar í álfunni. En ef vinnuflokkarnir gera sig líklega til að mynda samblástur, þá verða þeir að taka út refsingu sína í fangaklefunum, og annað hefur ekki gerzt. Ef aðfinnslurnar um sóðaskapinn eru á sömu rökum reistar og þessar aðfinnslur, þá er ekki mikið mark á þeim takandi. Ég hef ekki annað af fangaverðinum að segja en. það, að hann hafi rækt starf sitt með skyldurækni, eins og við var að búast af honum, og að hann sé sómamaður í hvívetna, og þykir mér ósennilegt, að óþrifalega sé gengið um á þessum stað. Geta allir um það dæmt, sem séð hafa hans bújörð, að hún er ein hin þrifalegasta, sem sést, og er ekki líklegt, að þar sé sóðaskapur hafður í frammi. En ef eitthvað er til í þessu, þá ber að senda kæru um það í stjórnarráðið, og sé þeim ekki sinnt, ber dómsmrh. að svara til saka, en það á ekki að koma fram með ásakanir eins og þessa hér á Alþ.