08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

15. mál, hegningarlög

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég er hissa á ræðuhöldum þessum öllum og ekki sízt á ummælum hv. 7. landsk. (GÞ). Ég hef upplýst, að ég fyrir mitt leyti hef ekki getað tekið nokkurt tillit til skrifa Þjóðviljans. Ég hef verið andvígur því að draga það blað fyrir lög og dóm, af því að ég hef álitið, að þeir menn tækju ekki mark á þessu blaði, sem ég tek mark á.

Nú segir hv. 7. landsk., að sendiherra Breta hafi hótað ríkisstj. því, að ef hún ekki hefðist handa um þetta, þá mundi herstjórnin brezka taka til sinna ráða. Er það skoðun hv. 7. landsk., að ég, undir eins og Bretinn andar á mig, eigi að vera eins og strá af vindi skekið, ef hann hefði komið og sagt við mig, sem hann ekki hefur gert, að hann ætlaði að gera eitthvað gagnvart Þjóðviljanum, ef ég ekki gerði það? Ég veit, að hv. 7. landsk. ætlast ekki til, að ég láti segja mér fyrir á þann hátt.

Ég álít Þjóðviljann svo ómerkilegt blað sem nokkurt blað getur verið um flest. En ég er alveg jafnandvígur því, að ríkisstj., hvað þá heldur erlent hervald, fari að gera blaðið upptækt. Ríkisstj. hafði engin ummæli um það frá Bretum, að Bretar ætluðu að gera blaðið upptækt, — hvorki vissi hún fyrirfram um handtökurnar né bannið gegn útkomu blaðsins. Þetta er því allt á röngum forsendum byggt hjá hv. 7. landsk., og ég er hissa á honum að hreyfa þessu hér, þar sem stoðirnar eru ekki tryggari undir hans máli en raun er á.