08.05.1941
Neðri deild: 54. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

15. mál, hegningarlög

Frsm. (Bergur Jónsson) :

Hv. 7. landsk. hefur fallið frá þeim orðum, sem hann viðhafði í sinni fyrstu ræðu, um það, að hann væri í vafa um það, hvort það ætti að veita stj. heimild til þess að nota ákæruvaldið og dómstólana eins og það kemur fram í frv. Ég ætlaði mér ekki að fara að skipta mér neitt af þeim deilum, sem um það standa, hvað stj. hafi vitað í sambandi við útkomubann Þjóðviljans. Ég vil aðeins út af því, að þetta er gert að umtalsefni, benda á það, sem ég veit, að hv. 7. landsk. veit manna bezt, að það er ekki vöntun á ákvæðum íslenzkra hegningarl., sem stendur í veginum fyrir því að gera upptæk íslenzk blöð, heldur 68. gr. stjskr. Þar segir svo: ;,Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða.“ En ég vona, að það sé ekki verið að blanda því saman við það, sem um er að ræða í þessu frv. Með því er aðeins verið að herða á refsiákvæðum og gera þau skýrari, svo að hægara sé fyrir dómstólana að átta sig á því, hvenær mál skuli höfðað.