16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Ég vil leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. utanrmrh. viðvíkjandi því, hvort hæstv. ríkisstj. hafi tekið upp nokkra stefnubreytingu að því er snertir störf utanríkismn. Ég á sæti í þessari n., og fram að ófriðnum voru oft haldnir fundir í henni. Hafa að vísu verið haldnir nokkrir fundir í n. síðan, en mér virðist sem nokkur breyting hafi á orðið, því að áður fyrr voru samningar við erlend ríki oft ræddir á fundum n., en fyrir það er nú tekið, og er nú orðin á þessu allmikil breyting. Mér er orðið svo að segja í barnsminni, hvenær fundur var haldinn í þessari n. Og síðasti fundur, sem haldinn var í n., var ekki haldinn að tilhlutun ríkisstj., heldur var það form. n., sem boðaði til hans út af töku á íslenzkum dreng, sem tekinn var og fluttur af landi burt í vetur. En utanríkismál virðast vera fjarlæg þessari n. og afskiptum hennar, af hvaða ástæðum sem það kann að vera. En upphaflega mun hafa verið ætlazt til þess, að utanríkismn. væri að öllum jafnaði ríkisstj. til ráðuneytis við samningu þá, sem gerðir væru við erlend ríki, og um önnur mál, sem snerta útlönd. Það er nú svo, að í hugum flestra hv. þm. mun það vera enn, að þeir búist við, að þeim, sem sæti eiga í þessari hv. n. sé eitthvað kunnugt um slíka samninga, og að þeir hafi einhvers staðar fengið að láta sitt álit í ljós, og er það von, meðan það er ekki upplýst, sem ég leyfi mér að halda fram, að undir þessa n. eða hennar afskipti sé minna og minna borið af þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í þessum samningaefnum. Út af þessu vil ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort það sé tilviljun, að svona er komið, eða hvort það sé stefna hæstv. ríkisstj. að sniðganga þessa n. framvegis, eins og mér virðist, að gert hafi verið nú að undanförnu.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að þessari minni gagnrýni er sérstaklega beint að hæstv. ríkisstj. nú, en ekki að formanni n. Því að þótt hann stundum hafi kvatt n. saman til þess að ræða um minni háttar mál, þá liggur í hlutarins eðli, að það er hæstv. ríkisstj., að eiga frumkvæðið að því, að þessi n. sé kvödd til funda, þegar við þykir eiga, en ekki formanns n. né einstakra nefndarmanna.

Svo að ég drepi á eitt dæmi, þá hefur verið um það deilt, hvort samið hafi verið um það eða ekki við erlent ríki, að gengi íslenzku krónunnar héldist óbreytt. Sumir segja, að þetta hafi verið gert: Af öðrum hefur það verið borið til baka, að svo hafi verið. Svona kann að vera um fleira. Og þeir, sem í þessari n. sitja, eru á engan hátt betur inni í þessum hlutum heldur en menn utan þings. Mér virðist, að hér sé brugðið frá þeirri venju, sem áður tíðkaðist, og þessari n. vikið frá því hlutverki, sem henni var ætlað, þegar hún var sett á stofn hér af hæstv. alþ.