26.03.1941
Neðri deild: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Einar Olgeirsson:

Mér þætti gaman að vita, hvort flm. þessa frv. álíta í alvöru, að sú leið, sem þar er stungið upp á, sé heppileg.

Ég verð að segja það, að ef þetta er borið fram í alvöru af hv. nm. og ríkisstj., þá er þetta sú undarlegasta kreppuráðstöfun, sem ég get hugsað mér.

Vildu ekki þessir herrar, sem bera þetta frv. fram, bera þessa till. saman við það, að búið væri, þegar stríðinu lyki, að koma hér upp atvinnufyrirtækjum eins og t. d. skipasmíðastöðvum og fleiru þess háttar til að auka framleiðslu okkar og nota vinnuaflið. Eða væri ekki eins heppilegt fyrir okkur að reyna að afla okkur hráefna og birgja landið upp af þeim? Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að við vitum ekki, hvort við höfum nægilegt til að lifa í þessu landi fram yfir stríð. Og þá er talað um það sem æskilegustu kreppuráðstöfunina að leggja 12 millj. kr. í frjálsum gjaldeyri til hliðar. Við eigum að halda áfram að láta landið vera jafnháð útlöndum hvað alla framleiðslu snertir eins og verið hefur. Ég hélt nú, að skilningur hefði farið vaxandi á því, að bezta kreppuráðstöfunin væri sú að reyna að koma upp nýjum framleiðslutækjum, jafnhliða því sem reynt væri að birgja landið upp af nauðsynjavörum. Ég fæ ekki betur séð en að flm. þessa frv. séu haldnir einhverri undarlegri oftrú á gildi peninga, án þess að taka nokkurt tillit til þeirra staðreynda, sem flestir ættu að hafa komið auga á, að það, sem hefur gildi, eru framleiðslutækin og vinnuaflið, en ekki peningarnir. Mér finnst það koma ljóst fram af flestum þeim frv., sem stj. hefur komið fram með, að stefna hennar, hvað atvinnulíf snertir, er haldin af þessari oftrú á ávísanirnar og af vanmatinu á gildi framleiðslunnar. Mér finnst, ef hæstv. stj. hefði viljað vera hreinskilin, þá hefði hún ekki átt að vera að bera svona frv. fram eins og þetta, sem hér liggur fyrir. Það er staðreynd, að við ráðum ekkert yfir okkar gjaldeyri sjálfir, og við eigum þess vegna ekki að vera með neinar sjálfsblekkingar í þeim málum. Ég held nú, ef yfirleitt væri hægt að fá nokkurn skapaðan hlut ræddan hér á Alþ. um þau mál, sem snerta grundvöll þjóðarafkomunnar, þá væri nauðsynlegt; að Alþ. ræddi um þessi mál, og það rækilega. Það færi þá ef til vill að renna upp ljós fyrir ýmsum um það, að reikningsfærslurnar á jafnaðarreikningnum við útlönd eru alls ekki eins mikið aðalatriði eins og látið er í veðri vaka. Ég gæti trúað, að ef þessi mál yrðu rædd, þá færi oftrúin á peningaseðlana ef til vill að minnka. En það getur vel verið, að hv. þm., sem flestir eru fylgismenn hæstv. stj., finnist svo mikil ástæða til að hlífa henni við umr. um þessi mál, að þeir vilji helzt ekki láta slíkar umr. fara fram. Ég skil það, að fylgismönnum ríkisstj. þyki ekkert skemmtilegt að þurfa að ræða um þessa miklu trú stj. á gildi innistæðnanna í erlendum bönkum og um leið á viturleik innflutningshaftanna og viðhald þeirra. Það er ekkert skemmtilegt fyrir þá að ræða þetta í ljósi staðreyndanna. En mér finnst, ef á að taka þetta frv. alvarlega, þá sé það hræðilegur dómur um hugmyndir hinna ráðandi manna á gildi peninga og hlutverk þeirra í þjóðfélaginu. Það virðist vera það eina, sem þeir menn sjá, sem koma fram með svona frv., það er bókhald, debet og kredit. Ég skal ekki neita, að það er gott að hafa það í lagi. En það er ekki það, sem þjóðfélagið lifir á. Það er ekki með slíku, sem atvinnulífið verður skapað og tryggt framvegis. Ég býst við, að það fari svo með þetta, eins og með flest, sem hér er rætt, að stj. skoði sig sem landsföður, sem eigi að hugsa fyrir þjóðina og hugsa fyrir flesta hv. þm. Hún leggur fram sín frv. og ætlast til, að þingið segi já og nei. Það virðast vera orðnar litlar leifarnar af þingræðinu, ef slíkt á að viðgangast áfram.

Ég vil svo aðeins að síðustu benda á það, viðvíkjandi ákvæðum 8. gr., að mér finnst óþarfi að takmarka meira en verið hefur þann rétt, sem sveitar- og bæjarfélög hafa til að ráða sér sjálf. Það er búið að skerða rétt þeirra nóg, þótt ekki sé lengra gengið. Það er ekki enn liðið úr huga mér, hvernig ríkisstj. hindraði með yfirgangi, að Siglufjarðarbær fengi að reisa nýtízku síldarverksmiðju, og hvernig síldarútvegurinn var þannig skaðaður um millj. króna með þessu framferði. Hafði þó ríkisstj. þá ekki meira vald en það, að hún gat bannað að láta reisa síldarverksmiðjuna, en bærinn var hins vegar búinn að útvega sér lán erlendis.

Eftir þessu frv. gæti ríkisstj. hindrað slíka lántöku. Ég álít það þess vegna mjög hættulegt atriði að auka vald ríkisstj. í þessum efnum. Ég skal annars ekki fara út í einstakar gr. frv. Ég hef ýmislegt um þær að segja, en ætla að láta þetta aðalatriði nægja.