26.03.1941
Neðri deild: 23. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Einar Olgeirsson:

Það verður mjög stutt, sem ég ætla nú að segja. Hæstv. viðskmrh. sagði, að engan óraði fyrir því, hve fljótt verðlagið kynni að breytast. Þetta er alveg rétt. En skyldi hann þá háfa hugsað út í það, hvers virði þessi varasjóður í erlendum gjaldeyri væri orðinn nú í samanburði við vörurnar, sem ætti .að kaupa frá útlöndum, þegar við þar á ofan ráðum ekki yfir erlendum innieignum okkar né getum notað þær ? Hækkun vöruverðsins hefur haft það í för með sér, að peningarnir eru nú miklu minna virði en áður, og er þá komin fram allgreinileg sönnun fyrir því, að þessi gjaldeyrisvarasjóður er langt frá því að tryggja öryggi landsmanna á krepputímum. Hann er sannarlega orðinn einn af þeim fjársjóðum, sem mölur og ryð munu fá grandað. En veit hæstv. viðskmrh., hvað hann hefur gert? Hann er að rífa grundvöllinn undan því frv., senn hann sjálfur hefur flutt.

Svo talaði hann einnig um það, að nú sem stendur væru engir gjaldeyriserfiðleikar. Það er einkennilegt að heyra þetta. Ef það er rétt, hvernig stendur þá á því, hve erfitt er um innkaup frá Ameríku? Það væri gaman að fá skýringu á því atriði.

Viðvíkjandi síðasta aðalatriðinu, sem hæstv. ráðh. minntist á, að hann mundi síðar meir gera grein fyrir stefnu hæstv. ríkisstj. á síðastl. ári í sambandi við innflutningshöftin, og það, að rógur hefði verið fluttur um ríkisstj. af einstökum þm. fyrir framkvæmdir hennar í þeim efnum, vil ég aðeins drepa á það, sem Morgunblaðið, sem er aðalstuðningsblað núverandi ríkisstj., segir um innflutningshöftin í ritstjórnargrein. Ég veit ekki, hvort hann les það blað svo vel, að hann fylgist með öllu því, sem þar er sagt. Morgunblaðið segir svo um þetta mál: „Ríkisstj. hefur bakað landsmönnum tjón, sem nemur tugum millj. kr., með stefnu sinni í innflutningsmálunum á síðastl. ári.“ Ég vildi aðeins minna á þetta, til þess að hæstv. viðskmrh. svari þeirri „krítik“ líka, þegar að því kæmi, að hann loksins fyndi ástæðu til þess að gera reikningsskap fyrir gerðir hæstv. ríkisstj. frammi fyrir Alþ.