30.04.1941
Neðri deild: 48. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

61. mál, gjaldeyrisvarasjóður og eftirlit með erlendum lántökum

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil þakka meiri hl. n. tillögu hans í þessu máli, en mér urðu það vonbrigði, að minni hl. skuli ekki geta fallizt á frv., og það því fremur sem í milliþinganefnd í gjaldeyrismálum voru fulltrúar frá öllum flokkum, og voru þeir allir sammála um að gera þær till., sem frv. felur í sér. Ríkisstj. hefur einnig orðið sammála um að gera það að till. sinni, að þessi l. verði sett.

Ég mun ekki lengja umr. nú, þar sem ég gerði frv. nokkur skil við 1. umr., og því fylgir auk

þess ýtarleg greinargerð, en vil þó víkja að því örfáum orðum, vegna þeirra ástæðna, sem minni hl. færði fram gegn frv.

Minni hl. heldur því fram í áliti sínu, að það muni ekki hafa mikla þýðingu, þótt lagt verði til hliðar sem svarar nokkrum millj. kr. í erlendum gjaldeyri. Hann færði þó engin rök fyrir þessari fullyrðingu sinni.

Það, sem fyrir milliþn. vakti í þessu máli, var það, að jafnan væri fyrir hendi nokkurt fé til ráðstöfunar erlendis og jafnframt að hindra það, að söfnuðust erlendar lausaskuldir. Þessum mönnum kom saman um, að til þess að ná þessu marki væri nauðsynlegt að binda þetta í löggjöf. Það, sem fyrir n. vakir, er m. a. það, að keppt verði að því að halda við þessari innieign, en jafnan þegar hún rýrnar, verði gjaldeyrismálin tekin til rækilegrar íhugunar og ráðstafanir gerðar í tæka tíð til þess að koma í veg fyrir gjaldeyrisskort.

Í bæði þau skipti, sem gerðar hafa verið ráðstafanir vegna gjaldeyrismálanna, var það ekki gert fyrr en töluverðar skuldir höfðu safnazt erlendis.

Þeir, sem um þetta mál hafa fjallað, hafa flestir verið sammála um það. Hefur það m. a. verið rætt við bankastjórn Landsbankans og formann bankaráðs. Það má ef til vill segja, að sama árangri mætti ná með því að fela Landsbankanum forsjá þess. — Þetta er ekki rétt. Ég vil benda á það, að til þess að gera ráðstafanir til þess að hafa áhrif á gjaldeyrisjöfnuðinn getur enginn einn aðili verið einhlítur, hvorki Alþ., ríkisstjórn eða þjóðbankinn. Til þess að hafa heilsteypta stefnu í málinu þurfa þessir þrír aðilar að vinna saman, og er því lagt til, að skipuð verði nefnd, er hafi þau verkefni með höndum, sem frv. ræðir um. Þessi nefnd á svo að koma saman einu sinni í mánuði, þar sem menn bera saman ráð sín um úrræði.

Minni hl. fjhn. heldur því fram, að til sé fjöldi nefnda, sem hafi með höndum ýmsa þætti viðskiptalífsins. Þetta er engin röksemd gegn frv., því að þó að það sé rétt, að þessar n. hafi með höndum ýmsa þætti viðskiptalífsins, þá hefur engin þeirra einhlíta yfirsýn yfir það allt. Nú eru styrjaldartímar. Við skulum taka dæmi um her, samsettan af mörgum herdeildum, þar sem hver herdeild hefur sinn forkólf. Herforingjaráð eða yfirstjórn er engu að síður nauðsynleg, sem hafi með höndum framgöngu hersins í heild. — Svipaðri verkaskiptingu gerir frv. ráð fyrir.

Mönnum er vorkunn, þótt þeim finnist, að dragast mætti að setja löggjöf sem þessa, eins og nú standa sakir, en ég álít, að það sé heppilegra að gera það nú, á meðan gjaldeyriserfiðleikar undanfarinna ára eru mönnum enn í fersku minni.

Nú mætti segja, að stj. væri innan handar að hafa forgöngu í þessu máli og kveðja á sinn fund þá aðila, sem nefndir eru í frv., en ég vil benda á, að skv. frv. á að kjósa sérstaka fulltrúa í n. á Alþ., ekki til þess að stjórna sérstakri stofnun, heldur til þess að halda fram heildarstefnu flokkanna í þessum málum.

Ég vil að lokum minnast á þriðja atriðið, sem

minni hl. nefndi, kostnaðaratriðið fyrir ríkissjóð. Hjá því verður ekki komizt, að einhver kostnaður verður af þessu fyrir þjóðfélagið í heild. Hvernig sá kostnaður skiptist milli þjóðbankans og ríkissjóðs, getur verið ágreiningur um, en ég fyrir mitt leyti teldi réttast, að ríkissjóður tæki þann hlut, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég vil um leið upplýsa, að ef frv. verður samþ., mundi þetta fjárframlag fullnægja vissri þörf, sem nú er fyrir hendi fyrir bankann, og mér er nær að halda, að þó að frv. yrði ekki samþ., yrði að styðja þjóðbankann eigi að síður, vegna þess ástands, sem skapazt hefur í þessum efnum.

Ég geri ráð fyrir, að mér hafi ekki tekizt að sannfæra minni hl. um nytsemi þessa máls frekar en við 1. umr. þess, en ég vil skora á þá, sem ekki hafa enn tekið til þess ákveðna afstöðu, að fylgja málinu fram, en vísa því ekki frá, svo sem minni. hl. leggur til.

Það væri hægt að færa fram fleiri ástæður málinu til stuðnings. Ég hef ekki farið út í það hér, að eitt af þeim hlutverkum, sem n. hefur, er að hafa eftirlit með skuldasöfnun og lántökum landsmanna erlendis, en það mælir líka mikið með frv. Þá vil ég biðja menn að álykta ekki í fljótfærni, að málið sé óþarft vegna þess, hve við eigum miklar innistæður erlendis nú. Þetta getur fljótlega breytzt, og því verðum við að vera vel á verði.

Þá vil ég einnig benda á það, að þegar talað er um ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir gjaldeyrisskort, er ekki aðeins um innflutningshöft að ræða, — þar eru fleiri sjónarmið. Aðrir flokkar kynnu að vilja grípa til annarra ráðstafana, t. d. með sérstökum tollum, að bankinn drægi saman sína útlánastarfsemi o. s. frv. Hver flokkur getur haft sitt sjónarmið, en ráðandi meiri hl. Alþ. verður að marka stefnuna. Það gæti því orðið mikils virði, að fulltrúar flokkanna kæmu með sín mismunandi sjónarmið á einn stað.

Það kom fram við l. umr. frá hv. þm. Borgf., hvort ekki væri hægt að gera þetta mál einfaldara með því að samþ. aðeins l. um gjaldeyrisvarasjóð og skuldaeftirlitið, en sleppa nefndinni.

Meiri hl. fjhn. hefur ekki gert till. um að nema burt þessa n., og vænti ég, að menn gangi ekki á það lagið. Ég geri mér vonir um, eins og ég hef rakið hér að framan, að þetta sérstaka ráð ætti að auka samvinnuna milli hinna þriggja aðila, Alþingis, ríkisstj. og yfirstjórnar bankans, en til þess að hægt sé að vænta þess, að samræmi verði í þeim ráðstöfunum, sem þessir aðilar gera, er nauðsynlegt, að fulltrúar frá þeim komi saman á einn stað.