21.02.1941
Neðri deild: 5. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

17. mál, loftvarnir

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um 4. gr. frv. Ég vil þó leiðrétta misskilning, sem komið hefur fram í sambandi við það, að talað er um að vinna endurgjaldslaust að undirbúningi loftvarna. Þar er auðvitað ekki átt við það að byggja loftvarnabyrgi, heldur hitt, að menn eru kallaðir til þess að æfa sig í að slökkva eld, ryðja úr vegi tálmunum, sem koma á göturnar við árásir, hjálpa særðum o. s. frv. Enda hafa þessi l. verið framkvæmd nú um nokkurt skeið, og hefur engum dottið í hug að framkvæma þau þannig að nota þetta ákvæði sem almenna þegnskyldu til vinnu. Ég skal geta þess, að þær sveitir, sem hafa verið æfðar í þessu skyni, eru yfirleitt ekki verkamenn, heldur menn, sem eru á lausum kili og geta auðveldlega hlaupið frá vinnu. Þetta ákvæði kemur því ekki niður á verkamönnum almennt. Ég vænti þess, að sú skýring, sem ég hef nú gefið, nægi til þess að leiðrétta þennan misskilning.