16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Bergur Jónsson:

Ég vildi leiðrétta nokkuð af því, sem hæstv. utanríkisráðh. hefur sagt út af fyrirspurn hv. þm. Vestm. Ég get sagt honum það, að það var venja, föst venja, sem aldrei var brugðið út af, þangað til þessi núverandi styrjöld hófst, að hvert einasta skjal utanríkismálan. var sent nefndarmönnum, og fundir voru alltaf haldnir í sambandi við þau málefni og ávallt í sambandi við milliríkjasamþykktir. Þetta breyttist skyndilega, þegar stríðið hófst, og síðan hafa svo að segja engir fundir verið haldnir í þessari nefnd. Svo að það hlýtur að vera af ókunnugleika mætt að segja, að engin stefnubreyting hafi átt sér stað gagnvart utanríkismálum. Það er náttúrlega rétt hjá hv. þm. V.-Sk., að meðan þing stendur er gert ráð fyrir því, að utanríkismálanefnd fái þau ein mál, sem þangað er vísað. Og það er kannske ekki óeðlilegt, þó að hæstv. ráðh. hafi ásakað hv, þm. Vestm. og aðra þm., að þeir skyldu ekki hafa tekið þá leið, þegar utanríkismál hafa verið tekin fyrir í deildinni. En ég vil benda á, að venjulegt frumkvæði í því máli hefur verið af hendi stj. sjálfrar. Og að því ert. d. sjálfstæðismálið snertir var hagað þannig vinnubrögðum í fyrravor, þegar afgr. var þál. um skipun á æðsta valdi í málefnum ríkisins, að þennan sólarhring, sem rætt var um það mál af þm., voru ýmist haldnir stjórnarfundir, utanríkismálanefndarfundir, flokksfundir, sameiginlegir þingfundir og loks opinberir fundir. Þetta var ekki gert í sambandi við sjálfstæðismálið nú í ár.

Ég vil taka undir með hæstv. ráðh. um, að það var leiðinlegt, að eitt ákveðið mál, sem vitanlega átti að vera algert leyndarmál; skyldi leka út eftir að haldinn var fundur í utanríkismálanefnd snemma á árinu. En ég vil benda honum á, að það er ósannað mál, hvort það voru nefndarmenn eða viðstaddur ráðh., sem sögðu frá því. En ef við ætlum að fara að tala um leyndarskylduna og draga þá ályktun af henni, að ekki sé rétt að hafa utanríkismálanefnd í ráðum um þau mál, sem til er ætlazt samkv. þingsköpum, þá þykir mér dálítið einkennilegt, að það skuli vera haldnir lokaðir fundir kannske með 40–46 þm. og birt fyrir þeim ýmis leyndarmál, en ekki óhætt að halda fund í 7 manna n. um sömu málefni.

Sem sagt, það er ekki hægt á neinn hátt að komast undan því, að það hefur orðið mjög mikil breyting um afstöðu gagnvart utanríkismálanefnd upp á síðkastið frá því, sem verið hefur. Og ég get ekki séð, að fyrir því sé nein önnur ástæða heldur en sú, að það sé eitthvert vantraust, sem hæstv., stj. hefur á n. Og ef svo er, þá væri náttúrlega bezta ráðið að taka upp þann, sem hv. þm. Vestm. gat um, að leggja bara þessa n. niður. Ég gat þess áðan, að rétt á meðan þing stendur yfir væri ekki skylda, enda þótt verið hafi venja áður, að leggja utanríkismál fyrir utanríkismálanefnd. En ég vil geta eins máls, sem sent var utanríkismálan. á þessu þingi. Það var till. til þál., sem vísað var til allshn. Nd. N. var sammála um að leita álits utanríkismálan. um þetta mál, sem var almennt, opinbert þingmál, sem getið var um í útvarpi og blöðum, svo ekki var nein ástæða til mikillar leyndar þar. En n. var aldrei kölluð saman. (GSv: Það var formannsins!) Formaðurinn sagði, að fundur ætti að vera haldinn, en að hæstv. stj. hefði ekki fengizt til að mæta. Þetta er það, sem er rétt í málinu. Ég veit náttúrlega ekki, hver er afstaða nm. yfirleitt, en menn kæra sig kannske ekki um að auka störf sín eða sækjast eftir að auka dagsverk sitt, — við höfum flestir nóg að gera. Hitt er annað mál, hvort við kærum okkur um að liggja undir því ámæli til lengdar, að ekki sé óhætt að treysta okkur. Ég held það væri hægurinn nær að fá nefndarmenn til að bindast þagnarheiti um það, sem vitanlega má ekki fara af fundum, og láta þess getið áður en rætt er um málið á fundi. Ég fyrir mitt leyti mun ekki segja frá því, sem ég má ekki segja frá, meðan ég er í n.