16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Magnús Jónsson:

Ég ætlaði ekki að blanda mér inn í þetta mál yfirleitt, en út af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, þá finnst mér ekkert óeðlilegt, þó að talað væri við utanríkismálanefnd einnig um þingtímann. Því að eins og kunnugt er, hefur fjmrh. víðtækar umræður við fjvn., sem ekki koma til þingsins kasta að öðru leyti. Sama er að gegna um aðra ráðh. og sjútvn. og landbn., sem hafa margvísleg störf, sem ekki koma fyrir þingið nema stundum í þál. eða frv.formi. Og það liggur í augum uppi, að ekkert er eðlilegra en það, að utanríkismál séu rædd við utanríkismálan. einnig um þingtímann, þó að hennar starf sé sérstaklega utan þingtímans. Ég vil ekki mótmæla því, sem hæstv. utanríkismálaráðh. sagði, að samningar séu jafnan bornir undir utanríkismálan. eða skýrt frá þeim. Það voru þá fréttir! Ég verð að segja, að ég veit ekki, hvernig þessi nefnd ætti að starfa, ef ekki á að segja henni frá slíkum aðalatriðum og þeim, að víðtækir samningar hafi verið gerðir við önnur ríki. Það er bókstaflega talað ekki verandi í n., ef nm. eiga að frétta utan að sér um stóra samninga við önnur ríki, sem aldrei hefur verið við þá rætt um né tilkynnt um.

En það, sem kom mér til að standa upp, er sérstaklega það, sem hæstv. ráðh. sagði, að n. liggi undir þeirri grunsemd, að einhverjir nm. hafi sagt frá nefndarmálum. Það er náttúrlega óþolandi fyrir n. að liggja undir þessu. Ef ég hefði haft hugmynd um þetta, mundi ég fyrir mitt leyti hafa hreint og beint óskað eftir rannsókn á þessu. Ef utanrmn. á varla að fá að koma saman um þingtímann og ef í öðru lagi á að fjalla um stærstu og mest varðandi utanríkismál án þess svo mikið sem að segja n. frá því á eftir, þá er nóg komið. En þegar n. liggur undir grunsemd um, að hún blaðri frá því, sem hún heyrir á fundum, þá er farið þannig að búa að n., að ég held það ætti að hætta að hafa hana. Þessi grunsemd á n. er annars algerlega órökstudd. Það er hver hópurinn af öðrum, sem hefur vitað um þessi mál, og ómögulegt er að segja, þó að eitthvað kvisist, að það sé frá utanrmn.mönnum komið, en ekki frá ráðh. sjálfum eða starfsmönnum í stjórnarráðinu.

Mér finnst, að þessar umr. hafi leitt í ljós, að mikill vafi sé, hvort þingið eigi ekki að taka til athugunar að leggja niður þessa nefnd.