16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

17. mál, loftvarnir

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Herra forseti !

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er bráðabirgðal., sem gefin voru út af hæstv. ríkisstj.

Málið hefur fengið endurskoðun í hv. Nd. og tekið allverulegum breyt., sem sjá má á þskj. 273.

Við athugun frv. taldi allshn. þessarar hv. d. ekki nauðsynlegt að gera neinar breyt. hér á frá því, sem hv. Nd. hafði frá málinu gengið. En í aðalatriðum er efni þessa frv., sem er nokkuð víðtækt, á þessa leið :

Samkv. 1. gr. frv. er bæjar- og sveitarstj. heimilt, í samráði við ríkisstj., að gera hvers konar ráðstafanir til loftvarna og annarra varna gegn hættum af hernaðaraðgerðum og verja til þess fé eftir því, sem nauðsynlegt er, sem ætlazt er til, að greiðist að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr viðkomandi bæjar- eða sveitarsjóði.

2. gr. er um það, hverjir hafi framkvæmdir þessar með höndum, og eru þar lögreglustjórar og sýslumenn sjálfkjörnir formenn þessara framkvæmdan., en að öðru leyti skulu kosnir af bæjar- og sveitarstj. menn í loftvarnan. lögreglustjórunum til aðstoðar, og skulu þessar loftvarnan. vera skipaðar, að formönnum meðtöldum, 5 mönnum í Reykjavík, en 3 mönnum annars staðar á landinu.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að bæjar- og sveitarstj. sé skylt að aðstoða við framkvæmd þessara ráðstafana, hverri á sínum stað, svo sem með því að ljá til þeirra hús sín og tæki eftir því, sem við verður komið, og án sérstaks endurgjalds.

4. gr. gerir ráð fyrir þeirri almennu borgaralegu skyldu að vinna án endurgjalds að undirbúningi loftvarna og annarra öryggisráðstafana samkv. l. þessum eftir fyrirmælum lögreglustjóra og loftvarnan. og að hlýða öllum fyrirmælum varðandi slíkar ráðstafanir, þar á meðal að taka þátt í fyrirskipuðum æfingum. Samkv. þeirri gr. er einnig heimilt að taka kjallara og aðrar vistarverur einstakra manna, er nota má sem loftvarnabyrgi, og útbúa þau í því skyni gegn sanngjörnu verði.

Þetta er í aðalatriðum það, sem bráðabirgðal. gerðu ráð fyrir. En sú breyt. hefur verið gerð með þessu frv. á þeim l., að bætt er inn í 5. gr. sem er ný gr., um það, að ef nauðsyn beri til að fólk flýi af hættusvæði á öruggari staði, þá sé ríkisstj. skylt að greiða fyrir flutningunum, og henni er í því skyni heimilað að taka leigunámi skip, bifreiðar og önnur farartæki, svo og lendur hvers manns og húsnæði eftir ákvæðum l. nr. 61 frá 1917.

Þetta er stórfelld efnisbreyt., en í fullu samræmi við þær till., sem hér lágu fyrir þessari hv. d., þegar verið var að ræða um flutning barna og mæðra úr bæjum og upp í sveitir.

6. gr. gerir svo ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara l.

7. gr. er um sektarákvæði, ef brotið er gegn l. þessum, og er um allháar sektir fyrir miklar sakir að ræða, allt að 10 þús. kr.

Þessi l. og þetta frv., eins og það er nú, er bein afleiðing af því ástandi, sem við búum við, og þeim ótta, sem yfirleitt ríkir hjá öllum almenningi og stjórnarvöldunum um það, hvað koma kunni, og er hér reynt að gera tilraunir til þess að verja fólkið, eftir því sem bezt eru föng til. Og að sjálfsögðu þarf lagafyrirmæli þar um.

Ég hef þá lýst aðalatriðum efnis þessa frv. Og allshn. getur ekki séð, að hér þurfi neinu við að bæta, og leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.