22.04.1941
Neðri deild: 42. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

20. mál, alþýðutryggingar

Ísleifur Högnason:

Það er út af brtt. á þskj. 237, sem ég vildi segja nokkur orð.

Það eru ekki nema 5 eða 10 mínútur síðan þessu þskj. var útbýtt hér í d., og þess vegna væri kannske rétt að geyma að taka afstöðu til þess fyrr en við 3. umr. Ég ætla samt að freista þess að láta hana koma til atkv. núna, því að hún liggur svo ljóst fyrir, að hv. þm. átta sig fljótt á henni, en það er hækkun frá till. allshn. á uppbótinni, sem rædd er í 1. gr., staflið c, að í staðinn fyrir þessi 30% komi 50%. Á þá upphæð, sem fæst, þegar þessum hundraðshluta hefur verið bætt við, skal svo greiða uppbót, er nemur sama hundraðshluta og vísitala kauplagsn. hækkar um. Í brtt. er einnig farið fram á þá breyt., að greiðslur fari fram mánaðarlega til gamalmenna og öryrkja, en svo hefur ekki verið áður.

Það er vitanlegt, að þeir, sem njóta opinberra styrkja, verða verst úti vegna dýrtíðarinnar. Við vitum, að dýrtíðarvísitalan er lægri en hún í raun réttri ætti. að vera. Hvað verkamenn snertir kemur þetta ekki eins við þá, því að atvinnan hefur aukizt svo, að þeir komast betur af en áður. En þetta á ekki við um gamalmenni og öryrkja.

Ef hv. þm. vildu athuga þessa till., munu þeir og geta fallizt á, að það er réttmæt krafa frá okkur að hækka ellilaun og örorkubætur eins og hér er farið fram á. Ég læt svo lokið máli mínu um þessa till.